Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 11:47:20 (5976)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:47]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mjög mikill metnaður á ferðinni og það að ná sveitarfélögunum ofan í u.þ.b. 50 er geysilega öflugt og mikið skref. Ég tel ekki hægt að segja sem svo að það sé línuleg nálgun í málinu, þ.e. að á ákveðnu árabili fækki sveitarfélögunum bara um helming, þ.e. úr 200 í 100, úr 100 í 50, úr 50 í 25, og svo í hvað? (Gripið fram í.) Já, nákvæmlega. Ég sé ekki hlutina í þessu einfalda ljósi.

Ef við mundum fækka sveitarfélögunum ofan í 12–14 án þess að við sæjum verulegar breytingar í búsetu á Íslandi tel ég að með svo fáum sveitarfélögum, 12–14 á Íslandi, værum við komin með þriðja stjórnsýslustigið. Ég er ekki talsmaður þess og ég hef ekki heyrt frá Samfylkingunni að hún vilji þriðja stjórnsýslustigið.

Það eru þrjú stjórnsýslustig í nágrannalöndum okkar, það eru lén í Noregi, fylki í Svíþjóð og ömt í Danmörku. Ef við höfum 12–14 sveitarfélög, og þá höfum við þessar þorpsstjórnir eða hreppsstjórnir sem hv. þingmaður Einar Már Sigurðarson lýsti hérna áðan, erum við komin með svona þrjú stjórnsýslustig. Ég er sem sagt ekki fylgjandi því. Það eru einhver takmörk fyrir því hvað við getum farið neðarlega í fjölda sveitarfélaga miðað við núverandi íbúamynstur og það íbúamynstur sem við sjáum fyrir okkur næstu — ja, ég þori varla að segja áratugina, maður veit ekki hvað hlutirnir breytast hratt, en næstu árin. Ég tel óraunhæft að tala um svona fá sveitarfélög, 12–14, það er bara óraunhæft. Þá lendum við í stökustu vandræðum með stjórnsýsluna þannig að ég tel ekki réttlætanlegt að gera það.

Ef það gengur hins vegar mjög illa að sameina sveitarfélögin þurfa menn auðvitað að fara að skoða hvort eigi að fara að setja lög. Ég vona að sveitarfélögin samþykki þær góðu tillögur sem verða sýndar á morgun.