Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 12:18:07 (5984)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:18]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, vinstri grænir hafa lagt fram tillögur varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Ef allt hefði verið eðlilegt og okkur hefði tekist að ræða þau mál, vegna þess að það mál var á dagskrá, hefðum við getað gert það í fyrradag.

Frumvarp vinstri grænna er mjög skýrt. Þar kemur fram hinn pólitíski vilji vinstri grænna um það hvernig eigi að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Hér er gert ráð fyrir því að taka aftur skattalækkunina sem almenningur í landinu fær með aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hugmynd vinstri grænna er einfaldlega sú að hækka útsvarið um 1 prósentustig. Hvaða áhrif ætli það mundi hafa? Með þeirri aðgerð væri verið að auka muninn á milli stöðu sveitarfélaganna í landinu. Þetta er aðferð til þess að búa til auknar tekjur fyrir stóru sveitarfélögin en þetta mundi engu skipta fyrir þau litlu.

Þetta er þess vegna algjör gervitillaga, tillaga sem er hins vegar mjög í anda hugmyndafræði vinstri grænna um aukna skattheimtu. Það er eina leiðin sem þeir sjá. Þeir hafa ekki þá pólitísku sýn að horfa til þess að vandi sveitarfélaganna í landinu er mismunandi. Þeir horfðu auðvitað út frá sjónarhóli sínum héðan af höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefði verið mjög fín tillaga til að auka tekjur stóru sveitarfélaganna með hærri tekjurnar en það er alveg deginum ljósara að þetta hefði engu breytt fyrir minni sveitarfélögin, hefði hins vegar haft það í för með sér að svigrúmið til að koma til móts við sjónarmið minni sveitarfélaganna hefði verið minna vegna þess að auðvitað er ekki hægt að ganga þannig frá málum að skattbyrði almennings í landinu sé endalaust aukin né heldur að ganga þannig frá málum að endalaust sé gengið í ríkissjóð. Vinstri grænir voru með þessu fyrst og fremst að reyna að slá ryki í augu fólks með því að þau létu í veðri vaka að þau væru einhverjir sérstakir talsmenn sveitarfélaga. Það eru þau ekki, þau voru talsmenn sumra sveitarfélaga en alls ekki allra.