Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 12:24:39 (5988)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:24]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að tillögur vinstri grænna um hækkun útsvars koma einmitt stærri sveitarfélögum til góða en alls ekki þeim minni. Þess vegna skýtur skökku við að hv. þingmaður skuli tala um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð sem einhvern mikinn jöfnunarflokk.

Í ræðu hv. þingmanns áðan var mikið svartnættið um þessa stöðu, um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga. Hv. þingmaður sá í rauninni aðeins einn jákvæðan punkt, þá staðreynd að hæstv. ráðherra skuli kynna tillögurnar á hv. Alþingi áður en þær fara formlega fyrir sveitarfélögin.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson notaði þau orð að ríkisstjórnin misbeitti valdi, notaði eiginlega svívirðilega valdníðslu við sameininguna, þessar sameiningarhugmyndir. Ég á dálítið erfitt með að koma því heim og saman, m.a. vegna þess hvernig staðið hefur verið að sameiningarhugmyndum þar sem fjölmenn nefnd hefur farið um allt land, átt mjög náið og gott samstarf og samráð við sveitarstjórnarmenn af öllu landinu og byggir tillögur sínar á því, upphaflegar tillögur sínar. Þær voru sendar sveitarfélögunum. Það komu viðbrögð við þeim og sameiningarnefnd tók tillit til þeirra. Þetta er hin lýðræðislega leið, öfugt við það sem t.d. er gert í Danmörku og kemur fram í frumvarpi frá Samfylkingunni um að ákveða þetta bara með einu pennastriki hér. Mér finnst þetta ekki ganga upp hjá honum.

Þegar hv. þingmaður segir að það sé lítið í þeim tillögum sem hér eru til umræðu, finnst honum þá 9,5 milljarðar til sveitarfélaga vera lítið?