Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 12:31:26 (5992)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:31]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það stakk mig töluvert að heyra hv. þm. Ögmund Jónasson tala um valdstjórnaraðferðir við sameiningu sveitarfélaga. Ég hef tekið þátt í störfum sameiningarnefndar og þekki alveg hvernig þau störf voru unnin þar. Þar var haft náið samstarf við sveitarstjórnarmenn um allt land, haldnir fjölmargir fundir til þess að fá fram afstöðu manna í þessu máli. Síðan munu íbúar viðkomandi sveitarfélaga einfaldlega taka afstöðu til þeirra tillagna sem lagðar verða fram. Ég vil líka minna á að lögð hefur verið mikil áhersla á það af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga nú um nokkurn tíma, í nokkur ár, að fækka sveitarfélögum með sameiningu. Menn hafa jafnvel gengið svo langt, sumir á þeim bænum, að lýsa því yfir að gera ætti það með lögum. Hér er verið að gera þetta eins lýðræðislega og mögulegt er með því að leggja fram þessar tillögur. Meira að segja er það svo að sum sveitarfélög hafa óskað eftir því á síðari stigum að koma inn í tillögur sem verið er að vinna með og við því hefur verið orðið.

Við þekkjum það, eins og hér hefur komið fram, að t.d. í Danmörku hafa menn farið þá leið að setja lög um sameiningu sveitarfélaga. Hér hefur ekki verið vilji til þess að fara slíka leið, að vísu hefur Samfylkingin lagt fram tillögur um að fara þá leið. Ég vil meina að slíkar aðferðir væru frekar valdstjórnaraðferðir en sú aðferð sem farin er hér.

Ég skil ekki alveg hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að þreyta eigi menn til niðurstöðu þar til að rétt niðurstaða fáist. Ég óska eftir því að hv. þingmann útskýri hvað hann á við og hvað sé rétt niðurstaða og af hálfu hverra. Vegna þess að ég get alls ekki séð, miðað við hvernig þessi mál eru unnin, að þetta eigi við nokkur rök að styðjast. Mér þætti vænt um að heyra frekari rök hjá hv. þingmanni fyrir þessum fullyrðingum, annars vegar með valdstjórnaraðferð og hins vegar hvað hann á við með réttri niðurstöðu.