Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 12:49:03 (5997)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:49]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var svolítið skrýtin ræða hjá hv. þingmanni. Hann byrjaði á að segja að málið sé lítið sem við fjöllum um, einungis væri verið að fresta sameiningarkosningu sveitarfélaga frá því í apríl fram í október og að þetta þyrfti ekki að taka langan tíma. Mér virtist helst á hv. þingmanni að ekki mætti ræða hvað lægi að baki því að við stöndum hér og þurfum að fresta atkvæðagreiðslunni sem átti að fara fram 23. apríl.

Sannleikurinn er sá að vandræðagangurinn við að koma sameiningarátakinu á hefur verið slíkur að það hefur alls ekki tekist undir verkstjórn hv. þm. Hjálmars Árnasonar að koma mönnum þannig saman að hægt sé að kjósa í apríl eins og um var talað.

Hv. þingmaður talaði mikið um lýðræðislega umfjöllun og að mikið hefði verið fundað með sveitarstjórnarmönnum og á þá hlustað. Menn hefðu hlerað hljóðið í þeim og byggt tillögur sínar á því. Síðan fengju sveitarfélögin að gefa álit á þeim tillögum og þetta væri eins lýðræðislegt og vera mætti og fullt tillit tekið til þess sem sveitarfélögin væru að tala um.

Það er oft gott þegar maður heyrir slíkar fullyrðingar að setja andlit á bak við það sem verið er að gera. Ég þekki náttúrlega best til á Suðurnesjum og hv. þingmaður líka. Á hvaða hljóði frá hvaða sveitarstjórnum var byggt í upphafi að leggja til að öll sveitarfélög á Suðurnesjum sameinuðust í eitt sveitarfélag? Og eftir að sú tillaga kom fram og sveitarfélögin höfðu gefið álit sitt á henni, hver verður niðurstaðan? Verður niðurstaðan eitthvað í dúr við það sem sveitarfélögin hafa verið að tala um, að Sandgerðingar vilja ekki sameiningarkosningu, Garðurinn vill ekki sameiningarkosningu, Grindavík vill ekki sameiningarkosningu og Vatnsleysustrandarhreppur vill sameiningarkosningu við Hafnarfjörð? Nú höfum við ekki tillögurnar í höndunum og getum þar af leiðandi lítið rætt um þær, en gott væri ef verkefnisstjórinn gæti sagt okkur hverjar tillögurnar eru varðandi Suðurnes.