Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 12:55:37 (6000)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:55]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur það margoft komið fram í umræðunni, en samt rétt að nefna það einu sinni enn, að tekjustofnanefnd tók sér góðan tíma. Hvers vegna tók hún sér góðan tíma? Vegna þess að menn voru að ræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar voru skiptar skoðanir en enginn hefur haldið því fram að sveitarfélögin séu ofhaldin af stöðu sinni. Þess vegna tók það langan tíma. Þess vegna liggur fyrir að sveitarfélögin fá 9,5 milljarða innspýtingu á næstu þremur árum og það sem meira er, á hverju ári eftir það 1,5 milljarða til viðbótar. Það er ákveðin niðurstaða sem er fengin með þessu þó auðvitað hafi sveitarstjórnarmenn viljað sjá meira. Þetta er þó sú niðurstaða sem blasir við og er mjög merkilegur áfangi.

Hvað varðar tillögur sameiningarnefndar hefur verið margfarið yfir það að þær voru unnar afskaplega lýðræðislega. Það verður því miður að segja að of margir sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum létu hjá líða að svara sameiningarnefnd og láta hana vita af afstöðu sinni. Hins vegar verða tillögurnar kynntar. Meginatriðið í þessu er auðvitað að íbúar sveitarfélaganna fá að segja skoðun sína, væntanlega að lokinni ítarlegri kynningu á kostum og göllum sameiningarinnar. Íbúarnir eiga að taka þá ákvörðun en ekki einstakir sveitarstjórnarmenn sem kunna að horfa á málið öðrum augum en hinn almenni íbúi í sveitarfélögunum.

Menn verða hins vegar að horfa á heildarmyndina. Verkefnið heitir: Að efla sveitarstjórnarstigið. Færa verkefni frá ríki til sveitarstjórna (Forseti hringir.) og gera sveitarstjórnarstigið öflugra.