Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 12:57:53 (6001)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:57]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í Suðurnesjaumræður, þær eru of viðkvæmar til þess að ég fari að skipta mér af þeim. En ákveðinn þáttur í ræðu hv. þingmanns vakti sérstaka athygli mína er varðaði áherslur hans á það hvernig verkefni skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga. Þar er hárrétt áhersla og einnig sú ábending hv. þingmanns að ákvarðanir hér væru miðstýrðari en víða annars staðar og valddreifing þar af leiðandi minni.

Þetta er kjarni málsins. Þetta er hið stóra verkefni og það sem við þurfum að horfa á til framtíðar. Þess vegna vil ég vekja sérstaka athygli á þessu því mér fannst áherslur í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, samflokksmanns hv. þingmanns, vera nokkuð aðrar þar sem hv. þingmaður var miklu fastari í nútímanum en horfði ekki með sama hætti til framtíðar og hversu mikilvægt það væri einmitt að snúa hlutföllunum við.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt mat að til þess að við náum þeim markmiðum fram þurfum við að stíga miklu stærri skref. Nú er ég auðvitað að reyna að leiða umræðuna svolítið inn í framtíðina, en ég vil að við stígum miklu stærri skref en við raunverulega náum að gera tillögur um í þessum áfanga þannig að við getum snúið hlutföllunum við og fært stór og mikil verkefni til sveitarfélaganna, stækkum þau um leið og breytum í grundvallaratriðum tekjustofnum þeirra. Ég held að þetta leysist ekki öðruvísi og spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að þetta sé sú framtíðarsýn sem við eigum að hafa gagnvart þessum málum og spyr hv. þingmann jafnframt að því hvort hann sé ekki líka sammála mér um að full ástæða sé til þess, þó það sé ekki nema í þingflokki framsóknarmanna, að ræða þessi mál svolítið nánar.