Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 17:37:36 (6129)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:37]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom auðvitað í ljós að það var ekkert samkomulag en í ljós kom að borgarstjórinn í Reykjavík hafði bara ekki meira á bak við sig í þessum yfirlýsingum sínum en þetta.

En það voru ekki allir ánægðir með þetta útspil borgarstjórans í Reykjavík. Má lesa í fréttum að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, var ekki sérstaklega ánægður með þetta og lýsti því yfir að þetta væri verkefni sem væri ekki rætt á milli sveitarfélaganna og ekki við ríkið heldur og það þyrfti þá að gera áður en slík skref yrðu stigin. Og af því að Lúðvík Geirsson var með sérálit varðandi niðurstöðu tekjustofnanefndar vakti þetta athygli mína, að þarna væri mjög undarlega staðið að verki.

Hæstv. forseti. Þetta sýnir bara að menn eru alls ekki einhuga í þessu máli. Það er alveg rétt eins og hv. þingmaður sagði, það eru misjafnar skoðanir. En þeir sveitarstjórnarmenn sem ég heyrði í á landsþinginu voru býsna ánægðir með niðurstöðuna. Aldrei er það svo að fullkomin sátt sé um þetta og það þarf enginn að segja mér sem gömlum sveitarstjórnarmanni að ekki sé endalaust hægt að nota meiri peninga í góð verkefni hjá sveitarfélögunum. Það eru metnaðarfullir sveitarstjórnarmenn sem þannig hugsa og vilja auðvitað hafa meira ráðstöfunarfé til þess að veita góða þjónustu. En það þýðir ekki að mjög skynsamlegt sé að fara þá leið og að menn hafi þá fulla stjórn (Forseti hringir.) á fjármálum sveitarfélaganna, en það (Forseti hringir.) þarf að hafa mjög góða akt á því eins og hjá ríkinu.