Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 18:08:19 (6133)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:08]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á þá umræðu sem hér hefur farið fram. Þrátt fyrir að það frumvarp sem hér liggur fyrir lúti fyrst og fremst að því að gefa upp fleiri valkosti hvað varðar dagsetningar á kosningum vegna hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaga verður ekki undan því vikist að ræða það sem kannski mestu máli skiptir hér nú um stundir, þ.e. niðurstöður og tillögur tekjustofnanefndar.

Ég vil eins og fleiri nefna þá sérstæðu stöðu sem hér kom upp í dagskrárlið í þinginu sem heitir óundirbúnar fyrirspurnir. Þá er gengið út frá þeirri hugmynd að um raunverulega óundirbúnar fyrirspurnir sé að ræða. Hæstv. fjármálaráðherra átti sorglega innkomu í þá umræðu þar sem hann lýsti því yfir að yfirlýsing borgarstjóra um áframhaldandi vinnu að því markmiði að tryggja sjö tíma gjaldfrjálsan leikskóla væri að einhverju leyti yfirlýsing sem kæmi í bakið á ríkisstjórninni. Það þótti a.m.k. okkur í stjórnarandstöðunni afar sérstæð yfirlýsing, þá einkum í ljósi þess að sveitarfélögin eru sjálfstæð og geta ráðstafað fjármunum sínum í samræmi við eigin niðurstöður og ákvarðanir sem þar eru teknar.

Ef skilja mátti yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra svo að ríkið hefði aldrei gengið til samninga við sveitarfélögin á þeim nótum sem það gerði hefði það vitað að þessi yfirlýsing væri yfirvofandi er það sérstætt og algerlega nýtt að ríkisvaldið skuli koma að fjármálum sveitarfélaganna á þann hátt sem hæstv. fjármálaráðherra gerði hér í dag. Ég verð að lýsa mikilli vanþóknun og hneykslan á því sem þar átti sér stað.

Hins vegar hefur það verið dregið fram og kannski einkennt þessa umræðu, því miður, að afstaða ríkisins til sveitarfélaganna virðist vera sú að hér sé ekki um að ræða tvo aðila sem hafa með framkvæmd opinberrar þjónustu að gera hvor um sig, þ.e. ríkið annars vegar og sveitarfélögin hins vegar. Bæði fara þó með verkefni sem lúta að þjónustu við almenning í landinu, þ.e. framkvæma opinbera þjónustu, hafa tiltekin verkefni á sinni könnu o.s.frv. Mér hefur fundist í þessari umræðu sem fulltrúar — ef hægt er að kalla þá svo — ríkisvaldsins sem hér hafa tjáð sig líti svo á að þetta sé alveg yfirdrifið nóg fyrir sveitarfélögin. Þeir nálgast þetta verkefni fyrst og fremst þannig að það eigi að skammta sveitarfélögunum úr hnefa, ríkisvaldið sé á einhvern hátt æðra og hlutverk þess sé að skammta. Það eru viðhorf og sjónarmið sem mér finnast vera algerlega fráleit vegna þess að ríkið og sveitarfélögin hafa einfaldlega mismunandi verkefni á sínum herðum og verkefni sem að stórum hluta eru ákveðin hér á hinu háa Alþingi. Að því leytinu til hefur mér þótt heldur dapurlegt hvernig sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins, og þá einkanlega Sjálfstæðisflokksins, hafa tjáð sig í þessari umræðu. Þeir segja að þetta sé ærið og þetta sé að einhverju leyti nóg og tryggi aukna fjármuni til sveitarfélaganna o.s.frv.

Kjarni málsins er hins vegar sá, eins og hér kemur skýrt fram bæði hjá meiri og minni hluta fulltrúa sveitarfélaganna í tekjustofnanefndinni, að um skammtímalækningu er að ræða fyrst og fremst og ekki er gert ráð fyrir því að leysa úr þeim vandamálum sem eru uppi á nokkurn hátt til lengri tíma. Það liggur fyrir í þessari umræðu að hér er um skammtímalækningu að ræða.

Mig langar einnig að gera að umtalsefni þá yfirlýsingu eða stefnumörkun sem væntanlega Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu máli. Má ekki túlka hana á þann hátt að hann sé lítt fylgjandi því að um gjaldfrjálsan leikskóla verði að ræða? Það verður ekki hægt að túlka orð hæstv. fjármálaráðherra á annan veg en þann að flokkurinn sé ekki mjög hrifinn af því að að því markmiði skuli stefnt. Ég held að full ástæða sé til að ræða þetta með opnum hug og kannski líka í því ljósi að menn eru almennt sammála um að ekki skuli stefnt að upptöku gjalda í háskóla, slíkt vinni gegn jafnrétti til náms. Það er það grundvallarsjónarmið sem hér hefur ríkt og flestir flokkar hafa tekið undir þau sjónarmið til þess að tryggja jafnrétti til náms, að nám og möguleikar til náms byggist ekki á fjárhagslegri stöðu fjölskyldna eða einstaklinga heldur að flestir hafi þessi tækifæri. Menn hljóta að velta fyrir sér þessari hugmyndafræði í því samhengi að mönnum þyki það, a.m.k. sumum hverjum, ekkert tiltökumál að fjölskyldur séu rukkaðar um allt að 30 þús. kr. á mánuði fyrir leikskólavist eins barns. Það hlýtur að vera umhugsunarefni í þessu samhengi hvað mönnum þyki sjálfsagt að menn greiði há gjöld í leikskólann en séu algjörlega andvígir því að taka upp einhvers konar gjöld við háskólana. Menn hljóta að ræða þetta í þessu samhengi. Því hljóta held ég flestir sem eru félagslega þenkjandi og styðja sjónarmið um jafnrétti til náms að taka undir þau sjónarmið að stefnt skuli að gjaldfrjálsum leikskóla þegar til lengri tíma er litið. Þess vegna þótti mér miður sú yfirlýsing sem hæstv. fjármálaráðherra gaf hér í dag, að ríkisvaldið hefði engan hug á því að koma að og styðja við bakið á þeim sveitarfélögum sem hygðust stefna að því að ná því markmiði.

Í umræðunni hefur einnig komið skýrt fram að staða sveitarfélaga er mjög misjöfn. Það hefur komið fram að staða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er betri en víðast hvar um landið. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart í ljósi mikillar hagræðingar sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi, sem hefur einkanlega falist í að fækka störfum í sjávarbyggðum, sem um leið hefur lækkað tekjustofna sveitarfélaganna. Það er alveg ljóst að sveitarfélög eru misvel í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem ég tel að sveitarfélög eigi að stefna að, þ.e. að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla. Þau eru misvel í stakk búin og því er alvarlegt, ætli menn að ráðast í þetta verkefni á landsvísu, að fulltrúar ríkisvaldsins gefi þá yfirlýsingu á hinu háa Alþingi að ríkið sé ekki tilbúið að koma að þeirri vinnu.

Hæstv. félagsmálaráðherra tjáði mér hins vegar áðan að hann ætlaði að skýra sjónarmið sín og þá væntanlega hluta ríkisstjórnarinnar gagnvart þessu máli. Hæstv. félagsmálaráðherra er í flokki sem er þátttakandi í R-lista samstarfinu, sem hefur gefið þessa yfirlýsingu. Það er því ljóst að vík er á milli stjórnarflokkanna í þessum efnum hvað varðar stefnu þeirra í málefnum leikskólanna.

Ég vona að hæstv. félagsmálaráðherra geti tekið undir að það sé framtíðarmarkmið að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla. Á sama hátt og menn eru ekki tilbúnir að taka upp gjöld við háskóla þá ætti hið sama að gilda um leikskólann. Auðvitað eru leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og háskólinn allt saman liður í að skapa hér öflugt samfélag. Hvorki sveitarfélög né ríkisvald geta skorast undan því verkefni að tryggja það.

Virðulegi forseti. Ég vildi draga fram þessi sjónarmið og sérstaklega það að ríkið er ekki af góðseminni einni að skammta sveitarfélögum fjármuni. Þannig er málið ekki vaxið. Sveitarfélög og ríkið hafa mismunandi hlutverki að sinna og halda utan um opinbera þjónustu við almenning í landinu. Ég frábið mér slíkt tal og frábið mér einnig að ríkinu sé gert svo hátt undir höfði að það hafi þessa stöðu.

Um leið og við vinnum bug á þessum hugmyndum, þessum sjónarmiðum og sveitarfélög og ríki fara að umgangast hvort annað sem jafningja, er ég sannfærður um að þessi málefni fari að komast í betra horf.