Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 18:24:45 (6137)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:24]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka oddvita Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni, fyrir að taka af öll tvímæli um að Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því að börnum verði veitt gjaldfrjáls dvöl á leikskólum. Hann sér ekki að við núverandi aðstæður í fjármálum sveitarfélaganna sé nokkur kostur á að verja þeim fjármunum sem til þarf í slík verkefni. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa talað alveg heiðarlega og skýrt um þetta efni. Þetta var í anda þess sem hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrr í ólundarræðu sinni í dag. Það er auðséð að Sjálfstæðisflokknum er mikið keppikefli að halda áfram þessum skatti á barnafjölskyldurnar í landinu.

Ég spyr hv. þm. Guðjón Hjörleifsson: Hvernig samræmist þetta því að hann er á sama þingi nýbúinn að létta nærri 30 milljörðum kr. af hátekju- og eignafólki sem ella hefðu verið tekjur fyrir hið opinbera? Fyndist honum ekki nær að nota eitthvað af því svigrúmi til að létta af þessum ósanngjörnu gjöldum, skólagjöldunum á leikskólana, af íbúum sveitarfélaganna, m.a. heima í Vestmannaeyjum? Ég veit að hv. þingmanni hlýtur að vera annt um leikskólabörnin í Vestmannaeyjum og vilja hag þeirra sem mestan, efla starfsemina þar og raunar í öllu kjördæmi hans. Hvernig getur hv. þingmaður hafnað því að gera þetta að forgangsmáli þegar hann hefur efni á skattalækkunum til hægri og vinstri fyrir nær alla hópa í samfélaginu? Það verður hv. þingmaður að útskýra betur fyrir mér.