Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 18:26:34 (6138)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:26]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er annt um leikskólabörnin og þá miklu og góðu starfsemi sem fram fer í leikskólum.

Það kom fram í bókun tekjustofnanefndar að menn ætluðu að endurskoða og fara yfir frumvörp og reglugerðir sem hér fara í gegn þannig að á þeim væri verðmiði. Það er jafnábyrgðarlaust að leggja fram frumvarp um gjaldfrjálsan leikskóla og að leggja það á sveitarfélögin að byggja upp fyrir 11,5 milljarða kr. Ég bendi á að þetta var rætt í félagsmálanefnd. Við erum líka að ræða um 7,5 milljarða kr. í viðbótarrekstrarkostnað vegna þessara breytinga og stækkunar á leikskólum.

Ég segi að það séu ekki forsendur fyrir þessu og þetta mál þurfi þá að taka upp í heild sinni, fremur en að skoða þetta eingöngu út frá því að leikskólinn verði gjaldfrjáls. Sveitarfélögin ráða ekki við þessa uppbyggingu og viðbótarrekstrarkostnað miðað við stöðu þeirra í dag.