Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 18:31:00 (6141)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:31]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski er ekki miklu við þetta að bæta. Hv. þingmaður staðfesti einfaldlega ákveðin pólitísk viðhorf, ákveðin pólitísk sjónarmið, ákveðna forgangsröðun, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn telur það ekki forgangsmál að tryggja leikskólabörnum gjaldfrjálsa vist og telur annað vera forgangsmál.

Hann svaraði ekki hv. þm. Helga Hjörvar þegar hann spurði hvort það væri meira forgangsverkefni að lækka skatta á þá sem meiri tekjur hafa en að tryggja þetta. Ég held að orð hans verði ekki túlkuð á annan hátt en svo að hann telji það ekki vera.

Virðulegi forseti. Ég vil því þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu um að flokkurinn telji ekki forgangsverkefni að tryggja leikskólabörnum gjaldfrjálsan aðgang að leikskólum.