Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 18:53:35 (6147)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:53]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst mál að ekki er tekinn af allur vafi um það að hér geti einhverjar breytingar átt sér stað. Ég vek sérstaka athygli á því að þessi breyting á lögunum um tekjustofna sveitarfélaga er verkefni hæstv. fjármálaráðherra. Miðað við þau orð sem hæstv. ráðherra lét falla hér í dag hljótum við að velta því fyrir okkur mjög alvarlega hvort þetta samkomulag sé ekki í ákveðnu uppnámi. Ég heyrði hins vegar að hæstv. félagsmálaráðherra sagði að það væri frágengið. Ég skil það þá þannig að ríkisstjórnin hafi samþykkt það og það sé frágengið af hennar hálfu. Þetta hlýtur engu að síður að vekja upp þá spurningu hvort hér sé ekki a.m.k. einhver óvissa komin upp gagnvart þessum lið.

Ég spyr enn og aftur hæstv. félagsmálaráðherra: Er hugsanlegt að á einhvern hátt verði breytt þeirri útfærslu sem er kynnt í tillögum tekjustofnanefndar og þá á þann veg að það verði hugsanlega greitt á einhvern annan hátt til sveitarfélaganna en hér er gefið til kynna?