Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 19:06:32 (6161)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[19:06]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég var minntur á að samkomulag væri um að ljúka þingstörfum og hver þingflokkur ætti að halda sig við hálftíma og ég mun standa við það. Ég reyni að standa við orð mín.

Mér fannst það vera skylda mín að bregðast við þar sem hæstv. félagsmálaráðherra var að túlka stefnu Frjálslynda flokksins varðandi tekjuskiptingu og afstöðu okkar til einhvers samkomulags sem er ekki einu sinni til umræðu hér. Við ræðum sameiningu sveitarfélaga en umræðan hefur farið út í hver rót vandans sé.

Ég tel hollt fyrir Framsóknarflokkinn að hann fari að átta sig á byggðavandanum. Það er ekki leið sem Framsóknarflokkurinn er að fara, að rótera peningum á milli sveitarfélaga, heldur verður að líta á hvernig atvinnan er í sveitarfélögunum. Það er miklu nær í staðinn fyrir að ætla að stækka einhverja sjóði sem tveir menn skilja. Ég held að allir ættu að vera sammála um að það er ekki leiðin og ég vona svo sannarlega að hæstv. félagsmálaráðherra átti sig einnig á því.

Fyrst við ræðum um sameiningu sveitarfélaga finnst mér rétt að fara yfir það mál. Það er mjög sérstakt að verða vitni að því að Framsóknarflokkurinn vill alltaf fara út á land að sameina sveitarfélög. Sum sveitarfélög eru orðin æðistór, t.d. sveitarfélagið sem ég bý í, Skagafjörður. Það er jafnvel orðið það stórt að búa þarf til hverfafélög og eitt og annað. Miklu nær væri, ef maður liti á þjóðarhag, að skoða höfuðborgarsvæðið. Hér er tækifæri til sameiningar, t.d. á Seltjarnarnesi. Eru einhver rök að það sé sérsveitarfélag? Hvers vegna einblínir Framsóknarflokkurinn ekki á það? Ég hefði talið að þar væri einmitt tækifæri þar sem hægt er að ná fram hagræðingu. Nei, það er ekki svo.

Ég hefði einnig talið sjálfgefið að ef fara á í verkefnatilflutning í sveitarfélögum, svo sem á Ströndum, að menn ræði það í tengslum við ýmis önnur verkefni eins og samgöngumál. Fyrir liggur að skynsamlegt væri að sameina yfir í Reykhólahrepp og þá þarf auðvitað að fara að byggja upp samgöngumannvirki.

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að komið sé að Norðvesturkjördæmi og mér finnst löngu orðið tímabært að það verði tekið fyrir. Í tengslum við það væri mjög fróðlegt að fá fram afstöðu hæstv. félagsmálaráðherra til sameiningar Reykhólahrepps og Hólmavíkur. Þar væri mögulega hægt að fá einhver samlegðaráhrif. En að ætla sér að fá eitthvað út úr sameiningu t.d. Drangsness og Hólmavíkur og flytja einhver verkefni þangað, ég sé ekki að það sé mikill akkur í því fyrir sveitarfélögin. Ég hefði talið að ef menn vildu efla hag þeirra sveitarfélaga væri miklu nær að horfa á atvinnuástandið, horfa t.d. á útræðisrétt, að tryggja að fólk geti komist í vinnuna. En Framsóknarflokkurinn virðist halda svo í þetta kerfi þó svo að það hafi ekki skilað neinum árangri að það má ekki færa það í tal. Þá verða menn reiðir og koma og segja að þessi maður, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sé að ræða um sjávarútvegsmál þegar við eigum að tala um einhverja merkilega hluti, sameiningu sveitarfélaga, og það megi ekki spilla þeirri umræðu með sjávarútvegsmálum. Auðvitað skilur maður það, þegar það er viðkvæmt hjá framsóknarmönnum að ræða atvinnumál, en þetta eru atvinnumál og það er það sem þetta snýst um, staða sveitarfélaganna. Ekki að menn séu að leggja saman einhver tiltölulega lítil sveitarfélög eins og fram kom á ágætum fundi hjá Frjálslynda flokknum á Drangsnesi, að menn hefðu vissar efasemdir um að ef lagðir yrðu saman tveir hálfgerðir ræflar hvort menn fengju eitthvert rosalega fínt sveitarfélag sem gæti tekið að sér hin og þessi verkefni.

Auðvitað verða menn að ræða þetta, hv. þm. Birkir J. Jónsson. (Gripið fram í.) Þetta er það sem skiptir máli en ekki að ræða um einhverjar mögulegar og ómögulegar sameiningar.

Ég var að velta fyrir mér, vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra sneri út úr varðandi að hlutur hins opinbera væri að stækka og vöxturinn færi fram á suðvesturhorninu, að þetta virðist vera mjög viðkvæmt mál, því ég hef reynt að færa þetta í tal í utandagskrárumræðum. Formaður flokksins, sem var þingmaður af landsbyggðinni en virðist vera flúinn suður og virðist endanlega staðfesta flutning flokksins á mölina, hefur færst undan að ræða þetta. Á meðan hafa framsóknarmenn jafnvel tekið upp á því að ræða sömu mál tvisvar. Svo er verið að kvarta yfir því að ég ræði um sjávarútvegsmál. Það er alveg með ólíkindum þegar menn ræða margsinnis í utandagskrárumræðum um sama málið með nokkurra daga millibili. Þetta er alveg með ólíkindum.

Að lokum, fyrst hæstv. dómsmálaráðherra er hér og er örugglega stoltur af ríkisútgjöldunum sem hann hefur þanið út, er rétt að minna á að hlutur hins opinbera hefur vaxið gríðarlega í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Samt kennir flokkurinn sig við það að minnka báknið. Það er náttúrlega mjög einkennilegt en hæstv. ráðherra getur eflaust skýrt hvernig menn geta minnkað báknið og aukið útgjöld hins opinbera. Ég skil það a.m.k. ekki.

Þetta er mitt hjartans mál, landsbyggðarmálið, og ég óttast að menn séu að drepa umræðunni á dreif með því að tala ætíð um sameiningu sveitarfélaga, sem á svo sannarlega rétt á sér víða, í stað þess að tala um atvinnumál á landsbyggðinni þar sem skórinn virkilega kreppir.