Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 10:43:10 (6274)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:43]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það eru ekki hagsmunir verslunareigenda sem hafðir eru að leiðarljósi heldur hagsmunir neytendanna, einkum þeirra sem helst þurfa á þjónustunni að halda þá umræddu daga sem frumvarpið tekur til. Ég held að það sé vel ljóst, bæði af frumvarpinu eins og það liggur fyrir og nefndarálitinu, að það eru ekki hagsmunir verslunareigenda sem eru í fyrirrúmi hér heldur er verið að reyna að koma á jafnræði milli þeirra aðila sem bjóða sambærilega þjónustu á ólíkum stöðum og tryggja sambærilegt aðgengi þeirra sem njóta þjónustunnar. Er einkum vísað til ferðamanna í því samhengi. Þeir geta sótt þjónustuna í ýmsum byggðakjörnum þar sem þjónustan er öll undir einu þaki en í þéttbýlinu þar sem reksturinn fer fram með sérhæfðari hætti stendur þjónustan þeim ekki til boða.