Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 10:53:01 (6277)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:53]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi misskilið ákveðin atriði í þessu máli. Hér er ekki um það að ræða að ferðamenn fái ekki þjónustu, t.d. þekkjum við að bensínstöðvar sem hafa heimildir nú þegar til að vera með opið á þeim tímum sem hér um ræðir hafa í auknum mæli verið að færa sig inn á matvörumarkað. Þær hafa tekið inn smávöru og ýmsa matvöru sem þær einmitt þjónusta ferðamenn með á þessum dögum. Breytingin sem hér er verið að fjalla um lýtur hins vegar að því að aðrir verslunareigendur fái sama rétt og þær greiðasölur sem nú þegar geta þjónustað ferðafólk með þessar vörur. Ég held að hér gæti ákveðins misskilnings í málinu hjá hv. þingmanni, hér er verið að tala um rýmkun sem er meira að segja talsvert meiri en óskir vinnuveitenda varðandi þetta efni hafa verið. Það kemur fram í umsögnum, bæði Verslunarmannafélags Reykjavíkur og eins Landssambands ísl. verslunarmanna, að þetta frumvarp gangi lengra en verslunareigendur hafi óskað eftir.

Óskir verslunarmanna hafa fyrst og fremst lotið að hvítasunnudegi en hér er verið að fara enn lengra en þær hafa óskir hafa verið. Það er það sem kannski er fyrst og fremst gagnrýnivert að hér er verið að ganga mun lengra en verslunareigendur og hagsmunaaðilar hafa óskað eftir. Það er ósanngjarnt að Alþingi Íslendinga skuli ganga fram fyrir skjöldu og taka frá verslunarmönnum þá litlu möguleika sem þeir enn eiga á einhverjum frídögum.