Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:04:24 (6282)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:04]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins örstutt í tilefni af ummælum hv. 10. þm. Norðaust. Ég hygg að óvíða séu meiri takmarkanir fyrir hendi varðandi verslun á þeim dögum sem hér um ræðir en hér á landi. Bæði varðar það þær tegundir verslunar sem eru opnar og eins þann fjölda daga sem um er að ræða þannig að ég hygg að ef litið væri til þeirra landa sem við berum okkur helst saman við mundum við óvíða, hugsanlega í Noregi, hugsanlega í Danmörku en óvíða annars staðar, held ég, finna meiri takmarkanir en eru hér á landi.

Ég vildi líka segja í tilefni af ummælum hv. þingmanns að íslensk ferðaþjónusta hefur á undanförnum árum lagt mikið af mörkum til að reyna að lengja ferðamannatímabilið, m.a. fram á vorið. Páskarnir eru t.d. að verða mjög mikilvægur tími fyrir íslenska ferðaþjónustu og ég verð að segja að það er ekki góður þáttur í þeirri sókn að segja við ferðamennina: Ja, þið getið að vísu keypt ykkur pulsu og kók í sjoppum og á bensínstöðvum en annað er lokað. Ég held að það sé ekki rétta nálgunin að segja að menn geti bara skipulagt sig.

Varðandi ummæli hv. þingmanns um að fjölskyldurnar eigi að skipuleggja sig betur get ég alveg fallist á að fjölskyldur geta alveg skipulagt sig betur en ég held hins vegar að vilji hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að skipuleggja fjölskyldulíf fólks eigi ekki að koma í veg fyrir að verslunareigendur geti haft opið ef þeir svo kjósa.