Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:10:02 (6285)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:10]

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í sínu fyrra andsvari að það væri ekki okkar, þingmanna eða löggjafans, að skipuleggja fjölskyldulíf fólks. Vissulega en samt ekki að ástæðulausu að með löggjöfinni er verið að takmarka afgreiðslutíma verslana eins og gert hefur verið. Það er ekki síður til að vernda starfsmenn þessara fyrirtækja því að það sem verslunarmenn óttast nú er að þeir muni ekki hafa neitt val í samningum, að þeim verði ekki boðið upp á neitt annað en að vinna á þessum dögum sem hér er verið að bæta við undanþágu frá lokun, þ.e. föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag, að þeir muni ekki standa frammi fyrir neinu vali, þeir muni þurfa að vinna á þessum dögum, það verði ekki samkomulag um annað.

Það er mikill þrýstingur ef opnað verður fyrir þetta, hvort sem verslunareigendur óskuðu eftir því eða ekki, ef það verður heimilt að hafa opið á þessum dögum verður mikill þrýstingur á að gera það. Starfsmenn eru þá bundnir af því að vinna og oft langan vinnudag og það eru þeir og fjölskyldulíf þeirra sem við erum þá ekki síður að standa vörð um.