Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:18:39 (6287)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:18]

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar sem vísað er til jafnræðisreglunnar og til þjónustukjarna úti á landi sem geta veitt þá þjónustu sem verslanir á höfuðborgarsvæðinu geta ekki vil ég segja að sumar bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru þannig að þær slá við hinum ýmsu þjónustukjörnum úti á landi hvað varðar vöruúrval, matvæli og aðra nauðsynjavöru. Bensínstöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu, eins og þær eru orðnar í dag, hafa tekið við þessu hlutverki. Væri ég ferðamaður eða þyrfti á mjólk að halda á umræddum helgidögum væru ekki nokkur einustu vandræði að nálgast hana hér á bensínstöðvunum, mörgum hverjum sem eru eins og litlir matvörumarkaðir og samsvara allt að því þeim þjónustukjörnum sem finnast úti á landi.

Af því að þetta er vegna jafnræðisreglunnar, að sagt er, eru aðstæður mjög mismunandi úti um land og hér á höfuðborgarsvæðinu líka. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að komast í mjög góða og almenna þjónustu og ekki nokkurt einasta vandamál.

Hvað varðar það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði um að ég vildi taka allt til baka, þennan afgreiðslutíma um helgar, þá er það ekki svo. Ég sagði að margir litu til þess, og ég geri það líka, hvort við hefðum ekki gengið skrefi of langt. Erum við ekki með afgreiðslutíma dagvöruverslunar, 10–11, 11–11, eða hvað þær nú heita, of langan yfir alla vikuna? Er ástæða til að hafa opið alla sunnudaga? Þetta er svona umhugsunarefni.