Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:24:29 (6290)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:24]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem ég reyndi að vekja athygli á í fyrra máli mínu, þ.e. að hvergi í lögunum er að finna viðurkenningu á því að mikilvægt sé fyrir ferðamenn að geta nálgast slíka nauðsynjavöru. Það er í sjálfu sér bara tilviljun að bensínstöðvarnar hafa þróast með þeim hætti að matvaran er í auknum mæli á boðstólum þar. Hvar í löggjöfinni birtist viðurkenningin á nauðsyn þess að ferðamenn geti keypt sér nauðsynjavöru á borð við matvöruna á þessum tilteknu dögum?

Það er gott og blessað að vísa til þess að verslunin hafi þróast þannig að bensínstöðvarnar bjóði mjólk og brauð í vöruúrvali sínu en að mínu áliti er miklu skynsamlegra að stíga það skref sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir og segja: Matvöruverslanir sem eru með tiltekið lágmarksverslunarrými — og ég held að skynsamleg leið hafi verið valin í frumvarpinu, að miða við 600 fermetra — mega hafa opið alveg eins og aðrir mikilvægir þjónustustaðir þessa tilteknu daga.