Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:34:54 (6293)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þurfa engar sérstakar ráðleggingar frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um það hvernig við heyjum baráttu okkar í þingsalnum og hvernig við heyjum þessa baráttu hér núna — það er að vísu ekki nein barátta — við erum bara að leggja áherslu á ákveðin sjónarmið sem við teljum vera mikilvægt að komi fram í þessari umræðu, enda koma þau sjónarmið fram í mótmælum Verslunarmannafélags Íslands í þessu máli við þeim breytingum sem hér eru í vændum. Við erum ekki að ganga lengra en raun ber vitni og ræður okkar í þingsalnum núna gefa til kynna.

Varðandi hins vegar þær ákúrur hv. þingmanns að við viljum frekar standa vörð um rétt verslunarfólks en rétt starfsfólks olíufélaganna þá flokkast það í mínum huga undir orðhengilshátt og útúrsnúninga og ég tel ekki neina sérstaka ástæðu til að svara orðhengilshætti og útúrsnúningum. Við erum að tala um prinsippmál sem verslunarmenn hafa hreyft í umsögnum til allsherjarnefndar og við höfum verið að tala fyrir því sjónarmiði í þessari umræðu og engu öðru.