Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:36:23 (6294)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:36]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að vita að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skuli afþakka ráðleggingar frá mér varðandi baráttumál sín í þinginu. Ég ætlaði svo sem ekki að ráðleggja þeim eitt eða neitt en ég get þó bent þeim á að ég kæri mig enn síður um ráðleggingar úr þeirri átt hvað stjórnmálabaráttu mína varðar.

Það er hins vegar fráleitt að kalla það orðhengilshátt og útúrsnúninga að benda á þann tvískinnung sem felst í málflutningi Vinstri grænna sem gengur út á það í öðru orðinu að standa svokallaðan vörð um réttindi verslunarmanna þegar um er að ræða starfsmenn tiltekinna fyrirtækja en ekki um rétt annarra starfsmanna sem sinna nákvæmlega sömu þjónustu og hinir fyrrnefndu. Þetta er ekki orðhengilsháttur eða útúrsnúningur. Eðli málsins samkvæmt er þetta rökrétt niðurstaða. Maður skilur því ekki, og það var það sem ég var að benda á, að úr því að afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í málinu er sú sem fram hefur komið af hverju í ósköpunum hv. þingmenn ganga þá ekki alla leið og leggja til að verslun á þessum dögum, hvort sem hún fer fram á bensínstöðvum, í lyfjaverslunum eða annars staðar, verði bönnuð. Það er sjónarmið en ég er ekki sammála því sjónarmiði. Það vekur náttúrlega sérstaka athygli að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skuli ekki treysta sér til þess að stíga það skref til fulls og ganga þess í stað ef svo má segja erinda olíufélaganna og vilja leyfa þeim að sitja ein að kjötkötlunum hvað varðar verslun og þjónustu þessa tilteknu daga. Auðvitað vekur það verulega furðu og það verður gaman að heyra viðbrögð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur við því.