Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:43:09 (6298)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:43]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það þá þannig að hér sé vandamál til staðar sem bregðast þurfi við. Þá er það komið sem viss útgangspunktur í umræðu um málið að það er einhver staða uppi sem þarf að bregðast við. Þetta frumvarp bendir á leiðir, það tiltekur þrjár mögulegar leiðir í stöðunni. Hérna er verið að gefa undir fótinn með að það kunni að vera einhver fjórða leið en án þess að bent sé á hana. Verslunarmenn hafa hreyft andmælum við þessu máli, ekki vegna þess að þeir hafi uppi beinar hugmyndir um einhverja fjórðu leið eða einhverja aðra leið en farin er í frumvarpinu, heldur fyrst og fremst á þeirri forsendu að þeir eru hreinlega á móti málinu. Þeir eru á móti því að verið sé að auka vinnuskyldu þeirra sem eru innan þeirra vébanda á þessum tilteknu dögum. Það eru andmælin sem þeir hafa við málið. Þeir eru bara ósammála þessu í prinsippinu og þess vegna held ég að ekki sé skynsamlegt að ætla að það náist einhver niðurstaða með frekari viðræðum við þá.