Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:46:02 (6300)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í því máli sem hér er til umfjöllunar togast á að mínu mati fjögur sjónarmið. Í fyrsta lagi það sem formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur ítrekað nefnt í ræðupúlti, þ.e. um jafnræði og jafna aðstöðu. Eins og fram hefur komið var á árinu 1997 opnað fyrir það að á þessum dögum geta t.d. bensínstöðvar, lyfjabúðir og fleiri aðilar haft opið og selt t.d. matvöru í bensínstöðvum.

Í annan stað er það sjónarmið varðandi ferðamannaiðnaðinn, sem vissulega er gott og gilt, og síðan það sjónarmið sem var mikið fjallað um á árinu 1997 og snertir friðhelgi heimila og helgidag jólanna. Að lokum er það sjónarmið sem ég horfi sérstaklega til í þessu efni sem snýr að rétti fólks sem vinnur í matvöruverslunum, en við þekkjum það að á umliðnum árum er sífellt verið að þrengja að rétti þessa fólks til frídaga.

Ég átti sæti í hv. allsherjarnefnd sem fjallaði um málið á árinu 1997. Þar komu helst fram þau sjónarmið að leitast yrði við að tryggja friðhelgi heimila og helgihald jólanna eins og frekast væri unnt en að hafa víðtækar heimildir fyrir ýmiss konar starfsemi um páska, en það væri sá tími sem algengt er að fjölskyldur nýti til ferðalaga og afþreyinga.

Með frumvarpinu er náttúrlega verið að þrengja verulega að þegar fara á að heimila að hafa verslanir innan tiltekinna stærðarmarka opnar á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag og gengið gegn þeim sjónarmiðum sem sett voru fram á árinu 1997 af hv. allsherjarnefnd og fram komu í nefndaráliti.

Virðulegi forseti. Ég vil einkum staldra við það sjónarmið sem snýr að verslunarmönnum. Ég tek undir að það er afar sérstakt að verið sé að ganga miklu lengra í að rýmka opnunartíma á helgidögum umfram þær óskir sem fram hafa komið hjá hagsmunaaðilum verslana, en umræðan, eins og fram kemur í umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur, snerist aðallega um afgreiðslutíma verslana á hvítasunnudegi. Hér er gengið miklu lengra í að rýmka opnunartímann á helgidögum og farið þá leið að hafa verslanir opnar á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag.

Misvísandi sjónarmið hafa komið fram um það hvernig opnunartími verslana er hér á landi samanborið við annars staðar. Orðrétt segir í umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur, og reyndar Landssambands verslunarmanna einnig, með leyfi forseta:

„Í dag er opnunartími verslana einna frjálsastur hér á landi af löndum hins vestræna heims og verður því ekki séð að sérstök þörf sé fyrir enn frekari rýmkun á þessu sviði.“

Það væri auðvitað mjög fróðlegt að fá fram hvað er rétt og satt í málinu, hvort að opnunartími okkar sé frjálsastur og hvort það sé þá rétt, eðlilegt og nauðsynlegt að rýmka þetta enn frekar að því er varðar föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag.

Í rökum þeirra sem mæla með samþykkt frumvarpsins heyrist mér jöfnunar- og jafnræðissjónarmiðin vega þyngst, þau sjónarmið að jafna aðstöðumun milli þeirra sem stunda verslunarrekstur. Það eru sjónarmið sem ég tel fullgild, en mér finnst minna hafa farið fyrir því að skoða málin út frá sjónarmiðum verslunarfólks. Mér finnst reyndar, eins og að málinu er staðið, að ef ganga átti svona langt í því að rýmka opnunartíma verslunar á frídögum hefði frekar átt að skoða það í tengslum við kjarasamninga. Það er verulega langur opnunartími hjá verslunum. Þær eru opnar sjö daga vikunnar allan ársins hring og þeim verslunum sem hafa opið allan sólarhringinn er sífellt að fjölga. Þetta kemur auðvitað verulega niður á vinnutíma verslunarfólks sem er oft mjög langur, sérstaklega yfir hátíðarnar, jólahátíðir og páskahátíðir, og það er enn verið að þrengja rétt fólks til þess að hafa frí eins og aðrir í þjóðfélaginu.

Nú er sagt að í kjarasamningum séu ákvæðin með þeim hætti að fólk geti valið um það hvort það vinni á stórhátíðum eða ekki, eins og þá væntanlega föstudeginum langa, páskadegi, hvítasunnudegi og öðrum helgidögum sem opið er á. En eins og við þekkjum er málið ekki svo einfalt, að fólk hafi þetta val. Fólki er iðulega stillt upp við vegg og það krafið um vinnu hvort sem það vill eða ekki á þessum dögum. Ég hefði talið rétt að menn hefðu aðeins hinkrað með þetta mál og að aðilar vinnumarkaðarins hefðu haft tækifæri til að semja um málið í kjarasamningum vegna þess að vel má vera að verslunarmenn hafi viljað semja um þetta, t.d. með því að fá í staðinn fleiri orlofsdaga, aukið stórhátíðarálag o.s.frv. En þegar búið er að gera þetta að lögum er verra fyrir verslunarmenn að semja um það í kjarasamningum að fá í staðinn aukna orlofsdaga eða aukið stórhátíðarálag þegar Alþingi er búið að fara þá leið að gera það að lögum að verslanir innan tiltekinna starfa megi vera opnar á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Það eru athugasemdir mínar við frumvarpið sem ég hefði viljað að menn skoðuðu nánar.

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki að mótmæla því að þessi leið verði farin, m.a. út frá þeim jafnræðissjónarmiðum sem teflt hefur verið fram, en mér finnst réttur verslunarfólks í málinu vera fyrir borð borinn og ekki nægjanlega vel hlustað á sjónarmið þeirra. Í fyrsta lagi út frá því að hagsmunaaðilar voru ekki að krefjast þess, samkvæmt því sem fram kemur í umsögn verslunarmanna. Í annan stað hefði ég talið að eðlilegt væri að gefa verslunarmönnum svigrúm og tækifæri til að taka málið upp í kjarasamningum og semja um í stað þeirrar rýmkunar sem hér er verið að gera, að fólk gæti fengið lengra orlof, aukið stórhátíðarálag o.s.frv. Verið er að draga úr þeim möguleikum að það náist fram þegar Alþingi er búið að lögfesta málið með þessum hætti og það eru þær athugasemdir sem ég hef við frumvarpið.