Helgidagafriður

Miðvikudaginn 06. apríl 2005, kl. 16:24:14 (6748)


131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[16:24]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Við getum með engu móti sætt okkur við þetta frumvarp sem er að koma til endanlegrar afgreiðslu. Hér er lagt til að taka af verslunarmönnum löghelgaða frídaga þeirra með því að breyta þeim reglum sem gilt hafa um afgreiðslutíma verslana á helstu helgidögum og afnema föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag sem frídaga þessarar stéttar með þeim undanþágum þó sem í lögum hafa verið.

Hér er gengið lengra en þeir sem óskuðu eftir breytingunum í upphafi mæltust til þar sem þar voru eingöngu óskir um að hvítasunnudagur yrði felldur niður sem þessi almenni frídagur verslunarmanna. Þetta er gert í mikilli andstöðu við samtök verslunarmanna, gegn hörðum mótmælum Landssambands verslunarfólks, Verslunarmannafélags Reykjavíkur og fleiri slíkra aðila. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum sanngjarnar kröfur þessarar stéttar um eðlileg frí (Forseti hringir.) eins og annarra og greiðum atkvæði gegn þessu frumvarpi.