Virðisaukaskattur o.fl.

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 12:50:28 (6786)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[12:50]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 55/1987.

Með frumvarpi þessu, sem er í svokölluðu bandormsformi, eru annars vegar lagðar til tímabundnar breytingar sem miða að því að gera skatta- og tollaumhverfi fyrir innflutning vetnisbifreiða og sérhæfðra varahluta í þær hagstæðara og hins vegar að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða verði framlengd um eitt ár til 31. desember 2006.

Fyrrnefndu breytingarnar eru í samræmi við þá stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa markað sér að miða að sjálfbæru vetnissamfélagi hér á landi í framtíðinni. Framleiðsla vetnisbifreiða er enn þá á rannsóknar- og tilraunastigi og því er verð slíkra bifreiða, hvort sem þær eru knúnar með efnarafölum eða sprengihreyfli, mun hærra en annarra ökutækja. Leiða má líkur að því að verulegur þjóðhagslegur ávinningur skapist af þessum tillögum.

Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Önnur breytingin felur í sér að tímabundið, eða fram til 31. desember 2008, verði heimilt að fella niður eða endurgreiða þeim sem flytja inn vetnisbifreiðar í rannsóknarskyni virðisaukaskatt að tveimur þriðju hlutum vegna kaupa á slíkum bifreiðum. Heimildin tekur einungis til vetnisbifreiða sem hafa í för með sér hverfandi mengun. Þessi endurgreiðsluheimild nær líka til sérhæfðra varahluta í slíkar bifreiðar.

Hin breytingin í I. kafla felur í sér að gildandi heimild samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða X í lögum um virðisaukaskatt, sem fjallar um heimild til endurgreiðslu tveggja þriðja hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2005, verði framlengd til ársloka 2006.

Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að núgildandi ákvæði í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem fram kemur að ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, séu undanþegin greiðslu vörugjalds, verði gert að tímabundnu ákvæði sem gildi til 31. desember 2008. Með því er verið að samræma þessa undanþágu við þá megintillögu sem lögð er fram í I. kafla frumvarpsins.

Í III. og IV. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald og tollalögum, nr. 55/1987, sem fela í sér að tímabundið, eða fram til 31. desember 2008, verði heimilt að fella niður eða endurgreiða vörugjald og eftir atvikum tolla á sérhæfða varahluti í vetnisbifreiðar.

Virðulegi forseti. Ekki er gert ráð fyrir að fjöldi vetnisbifreiða sem frumvarp þetta tekur til verði meira en ef til vill 10–20 á ári. Áhrif frumvarpsins á tekjuhlið ríkisins verða því að öllum líkindum lítil og ekki er heldur ástæða til að ætla að kostnaður við frumvarpið verði teljandi.

Ég legg til að frumvarpinu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.