Virðisaukaskattur o.fl.

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 13:39:33 (6790)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[13:39]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fram kemur í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að hugtakið sjálfbær, að ekki sé talað um sjálfbært vetnissamfélag, þarf ákveðinnar skýringar við. Eitt af hlutverkum ríkisstjórnar og stjórnvalda á hverjum tíma er auðvitað að sjá til þess að almenningur fái fræðslu um hugtökin sem við notum þannig að ljóst sé í hvaða tilgangi við notum þau og hvað þau þýða.

Hv. þingmaður lýsir ánægju með að ég skuli fagna sjálfbæru vetnissamfélagi vitandi að það útheimtir virkjanir sem hv. þingmaður segir að séu sjálfbærar. Grunnurinn fyrir sjálfbærar virkjanir er sá að ár séu virkjaðar í farvegi sínum og valdi ekki umhverfisspjöllum. Það er mjög auðvelt að framleiða vetni eða rafgreininguna sem þarf við vetnisframleiðsluna í gegnum slíkar virkjanir. Við þurfum ekki að byggja upp stór uppistöðulón til að við séum með jafnmikla raforkuframleiðslu að vetri og sumri. Vetnisframleiðsla getur því tekið eðlilegum árstíðarsveiflum sem t.d. raforkuframleiðsla fyrir álframleiðslu getur ekki gert. Það er allur munurinn á því að framleiða annars vegar raforku með vatnsaflsvirkjunum til rafgreiningar á vetni og hins vegar til að knýja álbræðslur.

Hv. þingmaður getur því treyst á stuðning minn varðandi framleiðslu á raforku til vetnisframleiðslu en ég ætla ekki að styðja hann í ósjálfbærum virkjunum sem útheimta risastór uppistöðulón og valda gífurlegum náttúruspjöllum.