Búnaðarlög

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 17:49:41 (6864)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:49]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt fyrir bændurna, landbúnaðinn og þjóðina að kynbótastarf sé öflugt í landinu. Hér er stigið mikilvægt skref í þeim efnum og menn ætla að láta bændurna sjálfa bera meiri kostnað í því sambandi. Eigi að síður gerðu menn ráð fyrir því, sem eru bæði hagsmunir bændanna og ríkisvaldsins þegar samningur var gerður, að til kynbótastarfa yrði varið ákveðnum fjármunum sem hér er greint frá í fylgiskjali með þessu frumvarpi, þ.e. að til kynbótastarfsins færu 100 millj. kr. sem munu auðvitað nýtast greininni.

Ég hygg að allir bændur, hvort sem er í dag eða áður — ýmsir eru utan við kynbótastarfið og hafa verið í gegnum tíðina — hafi alltaf notið góðs af félagshyggjunni og samstarfinu um kynbætur og ræktun. Ég hef ekki farið yfir það með þetta nýja bú, hvernig því verður varið þar en ég veit að þetta er öflugt og duglegt fólk sem vill búa við ræktunarstefnu og góðar kýr. Það verður auðvitað að fara yfir það í framtíðinni hvernig þeir komi inn í þetta starf eða hvernig þeir borgi fyrir sína þjónustu, sem getur þá verið með öðrum hætti því að ég hygg að þeir vilji engan veginn tengjast búvörusamningnum. Einhvers staðar hefur það komið fram hvað varðar beingreiðslur út á gripagreiðslur. Ég hygg að þeir hafi fullan rétt til að hafna öllum greiðslum frá ríkinu, að þeir ætli sér að standa þannig að og vilji borga fyrir slíka þjónustu og gera þá samning við sæðingarstöðvar um sitt starf.