Búnaðarlög

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 17:58:04 (6867)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:58]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var einmitt það sem ég sagði, að bændur hafa þurft að greiða þetta gjald hvort sem þeir nýttu þjónustuna eða ekki. Það leiðir til þess að þeir nýta hana þó að þeir hugsanlega mundu vilja nýta sér aðra möguleika, t.d. að halda eigið naut, fá lánuð naut hjá nágranna, halda sameiginlega naut með nágrönnum sínum eða leita til annarra sæðingarstöðva sem gætu þá verið einkareknar.

Kerfið sem hefur verið við lýði hingað til hefur komið í veg fyrir að menn sérhæfðu sig í sæðingum og færu í samkeppni. Bændur gætu valið um að fá sæði úr einhverjum úrvalsnautum eða bara ósköp venjulegt og ódýrara sæði frá venjulegum nautum. Ég er mjög ánægður með að ríkið og löggjafinn skuli ætla að hverfa frá því kerfi sem hefur við lýði. Það var einmitt það sem ég sagði, að nú gætu bændur valið.