Búnaðarlög

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 18:06:29 (6870)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:06]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar þannig stendur á hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni er hann oft manna neikvæðastur og sér hlutina með sínum gleraugum og túlkar þá með sínum hætti. Ég var fyrst og fremst að segja um búið að Eyjum í Kjós að ég hef hlustað á bóndann sem kýs að vera utan við kerfið og kjósi hann að vera utan við kerfið hlýtur hann að hafa fullt frelsi til þess, það þarf ekki að rengja orð mín eða annað. Hann er ekki að biðja um gripagreiðslur. Hv. þingmaður, sem vill með flokki sínum inn í Evrópusambandið, verður að skilja að þá fyrst hefjast flækjurnar, þá fáum við kannski flóknari landbúnaðarsamninga og flóknari leiðir til að styðja landbúnað okkar eins og gerist í Evrópu. Þá getur vel verið að menn fari að borga út á haughúsin aftur, út á akrana, út á gripina o.s.frv.

Ég hygg að þeir sem gangast undir að semja við ríkisvaldið og gera um það búvörusamninga, að í þeim samningum eru bæði réttindi og skyldur. Þeir sem eru í þeim samningum eru þar. Hinir hafa eins og ég rakti í máli mínu áðan fullan rétt til þess að standa utan þeirra. Það hefur þetta fólk ákveðið. Það vill ekki hafa réttindi samninganna og þess vegna ber það ekki skyldur þeirra. Þess vegna er það utan við kerfið. Það eru atvinnuréttindi þeirra og ekkert meira um það að segja. Það hefur valið sér þetta form og það reynir á það á næstunni hvernig fyrirtækið gengur. Ég óska þeim velfarnaðar í störfum þeirra og vona að ostar þeirra auki fjölbreytni íslenskra landbúnaðarafurða.