Búnaðarlög

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 18:10:14 (6872)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:10]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar hæstv. forsætisráðherra og hans flokk og í leiðinni minn flokk höfum við auðvitað talið mikilvægt að fylgjast með þróuninni í Evrópu og halda þar vöku okkar. Flokkurinn hefur enga afstöðu tekið til þess að hann telji mikilvægt að ganga í Evrópusambandið, enda tel ég að Ísland skeri sig nokkuð úr meginlandi Evrópu. Hér er mikill uppgangur, mikill hagvöxtur, batnandi lífskjör og mikil atvinna. Hér er því staðan á margan hátt betri, en við verðum auðvitað að fylgjast með nágrönnum okkar og efnahagslegri stöðu okkar.

Nýr búvörusamningur var gerður af Bændasamtökunum. Ég hef hlustað á viðtöl við hina nýju bændur í Eyjum í Kjós. Þeir hafa sagt það í fjölmiðlum að þeir vilji vera utan við búvörusamning og ekki þiggja neinn opinberan stuðning því þeir ætli þannig að keppa á markaðnum. Ég hef sagt að það sé þeirra val og ef þeir ætla að skoða það fara þeir auðvitað yfir það lögfræðilega. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega.

Hitt er annað mál að búvörusamningar framtíðarinnar munu ekki bara snúast um eitthvert greiðslumark og gera það ekki í dag, þeir snúast auðvitað um aðrar og breiðari leiðir eins og nýr samningur í mjólk sem tekur gildi hvað líður. Það er samningur við Bændasamtök Íslands um atvinnugreinina sem þetta fólk hefur kosið að standa utan við og hefur fullt frelsi til.