Búnaðarlög

Fimmtudaginn 07. apríl 2005, kl. 18:14:19 (6874)


131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:14]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má vel vera að margt sé gamaldags í landbúnaðarkerfi okkar enda er það gamalt og býr á gömlum og góðum grunni. Það sem við höfum nú verið að gera á hv. Alþingi er að létta ýmsum álögum af landbúnaðinum. Það er verið að breyta lögum og gera kerfið einfaldara. Ég tek undir með hæstv. landbúnaðarráðherra að Evrópusambandskerfið í landbúnaði er miklu flóknara en okkar kerfi.

Ég vil bara minna á að á síðasta ári gjörbreyttum við jarðalögunum og ábúðarlögunum og komum þeim inn í nútímann. Þar var nú heldur betur tekið til hendinni. Það var mjög mikilvægt að ljúka búvörusamningnum á liðnu vori og það ríkir mikil sátt um hann og ég man ekki betur en hann hafi fengið flestöll atkvæði þingmanna á Alþingi þegar hann var samþykktur.

Ég vil líka taka undir árnaðaróskir til bænda í Eyjum í Kjós og vona að þeim vegni vel. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefndi áðan að gripagreiðslur hefjast á næsta ári. En þeim verður ekki þröngvað upp á neinn og því fylgir að þeir sem taka við gripagreiðslum eru þá í þessum búvörusamningi. Gripagreiðslurnar tilheyra búvörusamningnum og þeir sem framleiða nautakjöt og eru ekki með mjólk koma til með að fá greitt á sína gripi af þessum gripagreiðslum. Þannig er það nú.

Ég tek undir það að kvótaverð er of hátt. Þar hefur ráðið framboð og eftirspurn. Ég er þess alveg fullviss að kvótaverðið mun lækka núna á næstu vikum.