Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 10:49:01 (7347)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:49]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eftir lestur skýrslunnar „Jarðskjálftar og misgengi á Kárahnjúkasvæði“ þykir mér þeim tveimur mínútum sem ég hef hér til umráða best varið með því að vitna beint til orða skýrslunnar.

Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Nýlegar jarðfræðirannsóknir benda … til hreyfinga á misgengi í Sauðárdal á nútíma, … Það misgengi liggur að hluta undir lónstæði Hálslóns. Misgengjakerfi við Kárahnjúkastíflu er jafnframt viðameira en áður var talið, og einnig tengist jarðhiti því. Þessar nýju athuganir benda til að svæðið sé ekki fullkomlega stöðugt með tilliti [til] höggunar og jarðskjálfta, og að jarðfræðileg vá sé þar umfangsmeiri en áður hefur verið talið.

Spennu- og aflögunarsvið svæðisins kann að breytast og jarðskjálftar verði þar á ný. Myndun Hálslóns og aukinn vatnsþrýstingur samfara því kann að valda misgengishreyfingum á Kárahnjúkasvæðinu, jafnframt því sem fjarlægir skjálftar geta valdið hreyfingum þar. Þá kann virkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum, þar á meðal í Öskju, Kverkfjöllum og Snæfelli, að leiða til misgengishreyfinga við Kárahnjúka.“

Þá segir einnig í skýrslunni að hætta á gleikkun sprungna vegna aukins vatnsþrýstings sé umtalsverð og búast megi við að margar sprungnanna séu mjög lekar.

Hæstv. forseti. Þarf frekari vitnanna við? Deilan um sannleiksgildi varnaðarorða Guðmundar heitins Sigvaldasonar, Ástu Þorleifsdóttur og Gríms Björnssonar er leyst. Þau höfðu einfaldlega rétt fyrir sér. En ætla Landsvirkjun og hæstv. iðnaðarráðherra að halda áfram að berja höfðinu við steininn, sofa rólega og kalla umfangsmikið misgengi undir steypta táveggnum við Kárahnjúkastíflu ótrúlega óheppni?