Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 10:53:15 (7349)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:53]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er eðlilegt þegar svo stór mál eru rædd sem hér er gert að menn haldi ró sinni og íhugi og velti fyrir sér bæði sögunni og framtíðinni. Það er okkur auðvitað, sem börðumst fyrir þessum miklu framkvæmdum, afskaplega mikilvægt að vel sé að verki staðið og að allt gangi sem allra best fyrir sig. Við gerum að sjálfsögðu ekki lítið úr því, og höfum aldrei gert, að það er verið að beisla móður náttúru og við ráðum auðvitað ekki að öllu leyti við þau miklu öfl sem þar eru. En þannig er nú í þessu ágæta landi okkar að það er mikil áhætta að búa í því.

Við þekkjum mýmörg dæmi um það að menn hafi tekið áhættu. Tökum Þjórsársvæðið allt saman. Þar er auðvitað jarðskjálftahætta og margs konar önnur hætta og ein af rökunum sem færð voru fyrir því að það væri rétt að fara norður fyrir Vatnajökul voru þau að vera ekki með allar þessar stóru virkjanir á sama svæðinu. En enginn hélt því fram að þetta væri allt gert án nokkurrar áhættu.

Við höfum líka fleiri dæmi. Við munum náttúrlega eftir Kröflu vegna þess að þar var gerð virkjun og þar gerðist ýmislegt sem menn vonuðu að gerðist ekki. Þetta eru staðreyndirnar sem við búum við í þessu landi, og ef við höfum áhuga á því að nýta okkur þá orku sem er til staðar verðum við auðvitað að taka einhverja áhættu. Það hlýtur hins vegar alltaf að vera markmið okkar að gera þessa áhættu eins litla og nokkur kostur er og bregðast við allri þeirri þekkingu sem fyrir liggur á þann besta hátt sem við getum. Það vona ég svo sannarlega að gert sé í þessu máli.

Vegna þess að nú er aðallega rætt um sprungur og misgengi rifjast upp að hér í nágrenni við okkur snerust árið 1982, ef ég man rétt, borgarstjórnarkosningar um að það mætti alls ekki byggja á sprungusvæðum. Ef ég man rétt réðust (Forseti hringir.) úrslitin meira og minna af því, en í ljós hefur komið að þar var verið að mála skrattann á vegginn, eins og ég óttast að sé (Forseti hringir.) svolítið verið að gera í þessu máli.