Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 11:08:39 (7356)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:08]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.

Árið 2003 voru áritaðir samningar um stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga. Í samningnum var gert ráð fyrir að álverið yrði stækkað í 240 þús. tonn í tveimur áföngum, fyrst úr 90 þús. tonnum í 180 þús. tonn og síðar úr 180 þús. tonnum í 240 þús. tonn. Á grundvelli áritaðra samninga voru gerðar breytingar á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.

Í kjölfar áritunarinnar átti Norðurál viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um orkuafhendingu vegna stækkunarinnar. Þær viðræður leiddu til þeirrar niðurstöðu að hagkvæmast væri að áfangaskipta stækkuninni þannig að í fyrri áfanganum yrði framleiðslugeta álversins aukin í 220 þús. tonn og í síðari áfanganum yrði miðað við 260 þúsund tonn. Rafmagnssamningur vegna fyrri áfangans hefur verið undirritaður og fyrir liggur viljayfirlýsing vegna síðari áfangans.

Þessar breytingar á stækkunaráformum Norðuráls leiða til þess að breyta þarf 6. tölulið 1. mgr. 6. gr. laganna, sem fjallar um fasteignaskatt. Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er lagt til að fasteignaskattsprósenta verði 0,75% svo sem verið hefur og að fasteignaskattsstofninn verði 6 milljarðar og 219 millj. kr vegna stækkunar í 220 þúsund tonn en 1 milljarður og 7 millj. kr. vegna stækkunar í 260 þús. tonn. Þá er lagt til að fasteignaskattur verði lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir að framleiðslugeta álversins er komin í um 220 þús. tonn á ári annars vegar og 260 þús. tonn hins vegar. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum átt í viðræðum við fulltrúa sveitarstjórna Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps um breytingar á samkomulagi þessara aðila um stofnun og rekstur álvers á Grundartanga, um samkomulag um skattstofn, skatthlutfall og annað fyrirkomulag fasteignaskatts vegna stækkunaráformanna. Breytt áfangaskipting stækkunar álversins kallar ekki á breytingar á öðrum ákvæðum laganna.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og iðnaðarnefndar.