Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 11:11:23 (7357)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:11]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þótt hér sé aðeins um að ræða frumvarp sem lýtur að tæknilegum atriðum við stækkun álversins á Grundartanga þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi: Hvað er gert ráð fyrir að þessi framkvæmd kosti, annars vegar stækkunin úr 90 þús. í 180 þús. og síðan úr 180 þús. í 260 þús. Hvaða tímasetningar eru við þessa framkvæmd og hvenær koma þær til framkvæmda í íslenskt efnahagskerfi?

Þá ætla ég líka að spyrja um virkjanir eða raforkuframleiðslu sem tengist þessari stækkun. Hve mikið kostar raforkuöflunin, virkjunarframkvæmdir sem tengjast þessari stækkun? Hvenær er gert ráð fyrir því að þær framkvæmdir komi inn í efnahagslífið þannig að menn sjái hvað er að gerast á hverjum tíma?