Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 11:12:51 (7358)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:12]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér eru fremur stórar spurningar settar fram í andsvari og ekki auðvelt fyrir mig að svara þeim óundirbúið þótt ég fylgist allvel með því sem er að gerast á Grundartanga, enda er það allt saman mjög til fyrirmyndar og ánægjulegt. Ég held ég kjósi að svara þessum spurningum frekar í ræðu á eftir, að því marki sem ég tel ástæðu til að svara þeim. Ég veit ekki hvort það er ástæða til að vera að fara nákvæmlega í kostnað við þessar framkvæmdir. En þær eru þó ekki á vegum ríkisins eins og hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir.

Ég held að óhætt sé að ítreka að náðst hefur samkomulag við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um afhendingu orku. Í því sambandi eru það hin rómuðu nýju raforkulög sem gera það að verkum að þessir samningar geta átt sér stað. Það er ekki lengur þannig að Landsvirkjun hafi einkarétt á að virkja á Íslandi. Það geta þessi fyrirtæki gert en hefðu hin nýju raforkulög, sem hv. þingmaður hefur heldur betur reynt að níða niður í umræðunni, ekki verið þá hefði þessi samningur ekki orðið og hin stórkostlega uppbygging á Grundartanga, sem er í kjördæmi hv. þingmanns, ekki getað átt sér stað.