Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 11:24:11 (7362)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:24]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum. Frumvarpið felur í sér ákveðin tæknileg atriði sem lúta að skattgreiðslum til byggðarlaganna í kring. Það er alveg rétt að lögin sem kveða á um stærðarheimildir álbræðslunnar á Grundartanga hafa þegar verið samþykkt frá Alþingi fyrir nokkru þannig að hér er ekki verið að grípa inn í þau atriði.

Hins vegar held ég að það væri fullkomlega ábyrgðarlaust ef við ekki horfðum til stöðu atvinnumála, stöðu efnahagsmála í samfélaginu og þau áhrif sem stórframkvæmdir eins og álverksmiðjur og stórvirkjanir hafa.

Við ræddum fyrr í dag mjög umdeilda Kárahnjúkavirkjun og umdeilda verksmiðju á Reyðarfirði þar sem menn höfðu ekki aðeins gagnrýnt þau miklu og óafturkræfu náttúruspjöll sem framkvæmdirnar hefðu í för með sér, ófyrirsjáanleg samfélagsáhrif í litlum samfélögum, heldur einnig hvaða áhrif hinar gríðarlegu fjárfestingar hefðu á efnahagslíf þjóðarinnar. Þessi ákvörðun var tekin og efnahagsleg áhrif hennar a.m.k. meðan á byggingartíma stendur hafa ekki verið nógsamlega undirstrikuð. Þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin var rætt um að hún mundi hafa áhrif á aðrar framkvæmdir í landinu. Hún mundi hafa ruðningsáhrif á annað atvinnulíf og það yrði keppikefli að lágmarka það. Þess vegna hljótum við að setja spurningarmerki við tímasetningar á stækkun á álverinu á Grundartanga í ljósi stöðunnar, því tímasettar ákvarðanir um stækkun á álverinu á Grundartanga eru teknar eftir að ákvörðun var tekin um að fara í framkvæmdirnar fyrir austan með öllum þeim fyrirvörum sem menn höfðu þar og áhættu sem menn tóku gagnvart efnahagslífinu. Þess vegna finnst mér alveg furðulegt þekkingarleysi af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra að geta ekki greint samtímis frá atriðum sem lúta að kostnaði framkvæmdanna á Grundartanga og á orkuverum sem tengjast þessu, línulögnum og öðru og hvenær það kemur tímasett í efnahagskerfi þjóðarinnar.

Ég þarf ekki að rekja mjög ítarlega alla þá umræðu og öll þau varnaðarorð sem eru flutt þessa dagana af Samtökum atvinnulífsins, samtökum einstakra atvinnugreina, yfirstjórn fjármála, bankamála, áhyggjur þeirra og athugasemdir yfir hver staðan er um hina ýmsu efnahagsþætti þjóðarinnar. Verðbólgan vex þrátt fyrir gríðarlega harðar aðgerðir af hálfu Seðlabankans með hækkun á stýrivöxtum, viðskiptahalli eykst geigvænlega og ruðningsáhrif m.a. stóriðjuframkvæmdanna eru gríðarleg á annað atvinnulíf. Gengið er þannig að útflutningsgreinar eiga í miklum erfiðleikum. Þá spyr maður sig hvernig stjórnvöld halda á málunum, því stækkun á álverinu á Grundartanga og orkuframkvæmdir þar eru hluti af stjórnvaldsákvörðunum. Er eitthvert samræmi í þeim aðgerðum sem verið er að gera?

Nú nýverið ræddum við stöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar. Þá kom fram að vegna stefnu ríkisvaldsins, stjórnvalda og hæstv. iðnaðarráðherra í atvinnu- og efnahagsmálum er samkeppnisstaða íslensks skipasmíðaiðnaðar mjög erfið og mun erfiðari í samkeppni við skipasmíðaiðnað í öðrum löndum. Ítrekað hefur verið leitað eftir því að það yrði leiðrétt og unnar skýrslur sem lúta að því að Íslendingar séu að refsa íslenskum skipasmíðaiðnaði í samanburði við það sem aðrar þjóðir gera í samkeppnislöndunum, en það þykir allt í lagi. Það þykir allt í lagi að fórna íslenskum skipasmíðaiðnaði og láta hann ryðjast á brott.

Í morgun var einmitt verið að vitna til þess í fréttum að norsk stjórnvöld hefðu fengið heimild EFTA til að hækka þróunarstyrki í norskum skipasmíðaiðnaði úr 10% í 20% en ekkert slíkt er gert hér. Atvinnustefnan sem hæstv. iðnaðarráðherra rekur er því ósköp skýr. Það er stóriðja og stóriðjustefna sem ýtir burt öðrum iðngreinum.

Við getum farið yfir hinar ýmsu umsagnir, t.d. umsögn Seðlabankans sem greinir frá ástæðum þessarar þróunar í Peningamálum, með leyfi forseta:

„Hraðari vexti innlendrar eftirspurnar en áður var reiknað með, auknum stóriðjuframkvæmdum, sérstaklega á árinu 2005, og auknu framboði íbúðalána til einstaklinga á lægri vöxtum.“

Þarna eru talin hin ýmsu atriði sem hafa áhrif á þensluna.

Förum í það sem forstjóri Marels segir, með leyfi forseta: „Fyrirtæki hafa verið að fara úr landi undanfarin missiri. Þar má svo sem nefna Hampiðjuna, Plastprent, 66°N.“ — Það er vegna þessarar efnahagsstefnu. Þá spyr maður sig: Er þá brýnt núna að keyra fram þessa stækkun álversins á Grundartanga? Hún er á mesta þenslusvæði landsins, á því svæði þar sem einmitt er verið að vitna til þess að íbúðabyggingar eru svo miklar að þær eru annar þáttur í því að skapa hina miklu þenslu, hátt raungengi o.s.frv. Á þessu svæði er í sjálfu sér ekki þessi brýna þörf, og meira að segja gæti þetta rutt öðrum atvinnugreinum burt.

Skipasmíðaiðnaðurinn á Akranesi gæti kannski verið betur settur ef gerðar hefðu verið nauðsynlegar hliðarráðstafanir til að tryggja samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar.

Að sjálfsögðu fagnar hvert svæði auknu atvinnuframboði, sérstaklega ef það hefur samfélagslega burði til að taka á móti því. Ég get vel skilið þau sjónarmið í sjálfu sér. Þegar við horfum hins vegar á þessi mál heildstætt fyrir þjóðina alla, sem við hljótum að gera, setur maður stórt spurningarmerki við þessa röðun verkefna.

Hverju stöndum við núna frammi fyrir í vegamálum? Við erum að ræða vegáætlun. Það er rætt um að skera þurfi niður framkvæmdir til vegamála, 6 milljarða kr. á þriggja ára tímabili. Vegna hvers? Jú, rökin eru færð — vegna stóriðjuframkvæmda. Það eru hin opinberu rök fyrir niðurskurðinum. Þá hljótum við að horfa á þetta dæmi í heild sinni. Niðurskurður á vegaframkvæmdum á Vestfjörðum, norðausturlandi, hér á höfuðborgarsvæðinu og hvarvetna, niðurskurður upp á 6 milljarða kr. frá gildandi vegáætlun. Vegna stóriðjuframkvæmda. Svo kemur hæstv. ráðherra og segist ekki hafa hugmynd um hvað þessar framkvæmdir kosti né á hvaða tímabil þessara ára þær muni koma. Við ræðum hér stórkostlegan niðurskurð á vegáætlun á árunum 2005 og 2006 og rökin eru stóriðjuframkvæmdir.

Óháð því hvort þessi framkvæmd, þessi stækkun á álverinu á Grundartanga, gangi fram sem Alþingi hefur samþykkt heimild fyrir … (Gripið fram í.) Alþingi hefur samþykkt heimild fyrir þessari stækkun. Ég er ekki fylgjandi álveri, nei, og það hefur verið sýnt fram á að álver í sjálfu sér skilar sáralitlu í þjóðhagslegum ábata þó svo að þau geti skilað ákveðinni atvinnu inn á takmarkað atvinnusvæði. (Gripið fram í.) Það er ekki ég sem er að segja þetta, það eru bara útreikningar sem sýna það.

Ferðaþjónustan aftur á móti skilar miklu meiri þjóðhagslegum ábata, hver eining í henni. Menn tala nú um að hátt gengi íslensku krónunnar geti farið að skaða verulega íslenska ferðaþjónustu. Þá veltir maður fyrir sér: Er þetta rétt forgangsröðun í verkefnum?

Orkuveita Reykjavíkur er þarna í framkvæmdum. Ég spurði hæstv. iðnaðarráðherra fyrir hve miklar upphæðir Orkuveita Reykjavíkur og Orkuveita Suðurnesja væru að ráðast í framkvæmdir. Hæstv. iðnaðarráðherra gat ekki svarað því, fannst það ekki skipta neinu máli. Ef við værum aftur á móti í framkvæmdum úti á landi eins og fyrir austan erum við öll meðvituð um að þetta skipti máli. Ég hélt t.d. að Orkuveitu Reykjavíkur þætti líka rétt að huga að notendum sínum hér en hún hækkar raforkuverð í Reykjavík og á þjónustusvæði sínu. (Gripið fram í: … hagstætt?) Jú, en það gæti verið enn þá hagstæðara. Meira að segja dreifikostnaður Orkuveitu Reykjavíkur er það hár að hann er notaður til viðmiðunar annars staðar í landinu og með þeim hætti heldur hún uppi dreifiveitukostnaði í landinu.

Hvað um það, mér finnst þessi forgangsröðun óeðlileg, fyrir utan áliðnaðinn í sjálfu sér sem sýnt hefur verið fram á að skilar litlum þjóðhagslegum ábata þó svo að hann skili atvinnu inn í viðkomandi byggðarlag. Við verðum að horfa á þetta mál heildstætt í ljósi efnahagsmála í dag og þeirra ára sem við nú stöndum frammi fyrir. Niðurskurður í vegamálum, niðurskurður í framkvæmdum á þjóðvegum vegna stóriðjuframkvæmda, og ég er ekkert sammála þeirri forgangsröðun að stóriðjuframkvæmdirnar eigi að ryðja burt vegaframkvæmdum eins og færð eru rök fyrir.

Herra forseti. Ég vildi bara koma þessum sjónarmiðum mínum að. Ég tel að það væri mjög eðlilegt að hér lægi fyrir sá kostnaður sem er við þessar framkvæmdir, bæði hvað varðar stækkunina á Grundartanga og tímasetningar á henni og eins líka framkvæmdir við orkuver og raflagnir og að við gerum ekki lítið úr þessu og segjum að þessar framkvæmdir, akkúrat af því að þær eru hér, skipti engu máli fyrir efnahagslífið í landinu, þær sveiflur og dýfur sem það tekur.