Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 11:39:08 (7363)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:39]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Atvinnustefna Vinstri grænna er nú orðin öllum ljós á þriðja kjörtímabili þess flokks á Alþingi. Þeir eru á móti uppbyggingu iðnaðar, stóriðjuiðnaðar hér á landi, það hefur komið skýrt fram, og alltaf á að gera eitthvað annað.

Hér er þingmaður Vesturlands, þingmaður Norðvesturkjördæmis, á móti því að fjölga störfum á Vesturlandi um 200, hátekjustörfum, og talar fjálglega um að þetta reddi ekkert öllu og muni kannski ekki segja mikið fyrir þetta svæði. En afleidd störf verða trúlega 300–400 til viðbótar þannig að við fjölgum kannski störfum á Vesturlandi um 600–700 fram til ársins 2009. Og þingmaður kjördæmisins setur sig upp á móti þessari framkvæmd og talar svo ekki um það að atvinnuvegir eins og slippstöðvar og fleiri muni fá verkefni tengd þessum framkvæmdum.

Ég ætla að benda hv. þingmanni á það að Slippstöðin á Akureyri er nú í tveimur mjög stórum verkefnum við Kárahnjúkavirkjun sem hafa gjörbreytt starfsumhverfi þess fyrirtækis. Síðan tala hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason um málefni þessara skipasmíðastöðva og segja að það hafi engin áhrif nema þá, ef eitthvað er, til hins verra að þessi störf verði til fyrir austan og á Vesturlandi.

Hvað ætla hv. þingmenn Vinstri grænna að segja við íbúa á Akranesi (Gripið fram í: Hvað á að gera …?) og íbúa í Borgarnesi? Þeir tala í hinu orðinu um að ekki sé til nein byggðastefna, segja svo að hér sé um láglaunastörf að ræða. Hér er um hálaunastörf að ræða. Við vitum að á vinnustað eins og í álverinu í Straumsvík er biðlisti hjá Íslendingum eftir að komast að í vinnu. Af hverju halda hv. þingmenn að það fólk mundi ekki (Forseti hringir.) alveg eins vilja vinna á Austurlandi eða á (Forseti hringir.) Vesturlandi?