Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 11:50:30 (7368)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:50]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi hefur tekið ákvörðun um þessa verksmiðju og þó að ég hafi ekki verið hlynntur henni þá liggur sú ákvörðun fyrir, enda erum við ekki að ræða það hér. Ég tel reyndar að stóriðja eins og álverksmiðjur með tilheyrandi vatnsaflsvirkjunum t.d. séu ekki heppilegir atvinnukostir hér, þeir skili litlum þjóðhagslegum ábata. Það er meiri innflutningur og minni nettóútflutningur. En auðvitað skilar þetta atvinnu inn á viðkomandi svæði þar sem verksmiðjan er, annað hvort væri það nú. Ég hélt engu öðru fram.

Ég get alveg spurt hv. þingmann: Finnst hv. þingmanni allt í lagi að skera niður vegaframkvæmdir um 6 milljarða kr.? Rökin fyrir því eru m.a. stóriðjuframkvæmdir og þensla og staðan í efnahagslífinu. Er þá mikilvægast hér á þessu svæði akkúrat núna að stækka þessa verksmiðju? Hefði ekki átt að skoða það? Á það að vera þannig að iðnaðarráðherra geti bara ekki svarað hvað þetta kostar? Finnst honum það allt í lagi og telur hann að þetta sé ekkert þannig mál að það skipti nokkru í efnahagslegu tilliti fyrir þjóðina? Hv. þingmaður getur kannski velt því líka fyrir sér hvort tímasetningar þessarar framkvæmdar koma eftir að ákvörðun um framkvæmdina fyrir austan var komin, svo umdeild sem hún var? Þá var einmitt talað um ruðningsáhrif hennar á annað atvinnulíf. Mér finnst því að annað væri óábyrgt en að velta ekki fyrir okkur tímasetningum á stórframkvæmdum sem þessum inn í íslenskt efnahags- og atvinnulíf.