Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 12:08:24 (7372)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann fagnaði þessu öllu saman mjög, frumvarpinu og allri þróun á Grundartanga. En hann gat þessi ekki hver afstaða hans væri til þess vinkils sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á sem snýr einmitt að fasteignaskattinum sem við erum einmitt að ræða hér, og því hvernig hann greiðist allur til tveggja lítilla hreppa en kemur ekki til greiðslu á öllu atvinnusvæðinu. Ég hefði gjarnan viljað fá hjá hv. þingmanni afstöðu hans til þess að þarna komi allur þessi fasteignaskattur til þessara tveggja litlu hreppa en ekki til svæðisins í heild. Ég hefði gjarnan viljað heyra afstöðu hans til þess og þeirra hugmynda um að breyta skattlagningunni þannig að allir þeir fjármunir komu öllu svæðinu til góða og hvort hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því að fleiri en bara þessir tveir litlu hreppar nytu ávaxtanna af auknu fjármagni sem kemur vegna stækkunar á Grundartanga.