Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 12:18:33 (7379)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:18]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú kunni ég betur við tóninn í hv. þingmanni, við erum að verða sammála um að það þurfi að vinna fyrir þetta svæði ekki síður en önnur svæði í kjördæmi okkar.

Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði áðan varðandi fjölbrautaskólann, af því að hv. þingmaður nefndi það, að ég er alveg sammála honum í því að hann er alls góðs maklegur. Fjölbrautaskólinn var á sínum tíma einhver mesta himnasending sem komið hefur á Akranes. Það gjörbreytti aðstöðu fólks á Akranesi til búsetu þar þegar unga fólkið gat farið að stunda nám sitt upp í stúdentspróf á staðnum í staðinn fyrir að þurfa að leita til Reykjavíkur eða Akureyrar. Það var mikil himnasending og skólinn hefur verið mikil fyrirmyndarstofnun í höndum ágætra manna og ég tek undir að það þarf að efla hann og styrkja.

En til þess að geta eytt meiru í skóla og annað sem okkur langar að gera fyrir samfélagið þarf tekjur, eins og ég sagði áðan, og þær tekjur koma m.a. af öflugri og traustri stóriðju. Þess vegna fagna ég enn og aftur stækkun álversins á Grundartanga sem er og verður svæðinu mjög til góðs. En ég fagna sérstaklega hinum nýja tóni í hv. þingmanni og við skiljum sáttir eftir umræðuna eins og alltaf áður.