Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 14:21:23 (7400)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[14:21]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get talað skýrt í þeim efnum, að mér finnst það mjög gallað fyrirkomulag að þetta skuli geta verið með þessum hætti. Þó að ég, eins og ég sagði áðan, fari ekki með sameiningu eða málefni sveitarfélaga þá get ég haft þá skoðun. Ég hef orðið fyrir barðinu á þessu fyrirkomulagi, ef þannig má að orði komast, víðar en hér á Vesturlandi. Hið sama gerðist náttúrlega fyrir austan þótt þar hafi orðið sameining sveitarfélaga. En því miður, vil ég segja, hafnaði Fljótsdalshreppur sameiningu þannig að hann situr eftir með stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar og það finnst mér óæskilegt. Mér finnst að hrepparnir allir, öll sveitarfélögin fyrir austan sem hafa hagsmuni af Kárahnjúkavirkjun, hefðu átt að sameinast í myndarlegt stórt sveitarfélag á Héraði.

En þetta er svona og ég get ekkert annað en vonað að úr rætist og ég heyri að við erum sammála, ég og hv. þingmaður, hvað þetta varðar.