Verðbréfaviðskipti

Mánudaginn 02. maí 2005, kl. 10:51:28 (7890)


131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[10:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Ég tel rétt, virðulegi forseti, að það komi fram við þessa atkvæðagreiðslu að meiri hlutinn felldi tillögur okkar, fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd, sem Fjármálaeftirlitið kallaði eftir til að vernda betur hag smærri hluthafa með því að kveða á um að tilboðsskylda myndaðist við 20% eignarhluta, sem er ráðandi eignarhluti í tengslum milli aðila, í stað þriðjungs eins og stjórnarflokkarnir leggja til í frumvarpinu. Með því að fella þessa breytingartillögu var gengið gegn hagsmunum smærri hluthafa. 20% ákvæðið er nauðsynlegt vegna smæðar markaðarins og mikilla eignatengsla. Hefur Fjármálaeftirlitið legið undir ámæli fyrir að taka ekki á málum sem nokkrum sinnum hafa komið upp á liðnum árum. Þeir gátu það ekki þar sem þetta viðmið var ekki til staðar.

Það er því afar óeðlilegt að fella þessa tillögu. Það styrkir hag stórra hluthafa og stóru viðskiptasamsteypnanna en gengur gegn hagsmunum fjöldans, þ.e. smærri hluthafa. Auk þess felldi meiri hlutinn breytingartillögur okkar um að Fjármálaeftirlitið fengi heimild til að beita (Forseti hringir.) stjórnvaldssektum við markaðsmisnotkun.