Tollalög

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 15:39:24 (7959)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Tollalög.

493. mál
[15:39]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1256 um frumvarp til tollalaga frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lilju Sturludóttur, Jónu Björk Guðnadóttur og Elmar Hallgrímsson frá fjármálaráðuneyti, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu ásamt Lilju Jónasdóttur hrl. og Einari Baldvin Axelssyni hrl., Óttar Pálsson hrl. frá Lögmannafélagi Íslands, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði, Ernu Guðmundsdóttur frá BSRB og Hörð Daníelsson frá Tollvarðafélagi Íslands. Auk þess að funda með gestum fór nefndin ítarlega yfir umsagnir sem bárust um málið.

Í frumvarpinu er gerð tillaga að nýjum tollalögum en gildandi tollalög eru frá 1987. Mikil framþróun hefur orðið á þessu tímabili, t.d. hvað varðar rafræna tollafgreiðslu og aukna þjónustu tollmiðlara. Það er því eðlilegt að lögin séu endurskoðuð í þessu tilliti.

Á árinu 2001 fól fjármálaráðherra nefnd að vinna drög að nýjum tollalögum. Undir lok 130. löggjafarþings lagði hann svo fram til kynningar frumvarp til tollalaga. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á þessu máli frá því að frumvarpið var kynnt á síðasta þingi og m.a. verið tekið tillit til ýmissa ábendinga hagsmunaaðila.

Frumvarpið telur 198 greinar auk ákvæðis til bráðabirgða og tollskrár sem er fylgiskjal með frumvarpinu. Tollskrá kom ekki til athugunar í nefndinni að þessu sinni heldur var sjónum beint að efnisákvæðum frumvarpsins. Helstu nýmæli í frumvarpinu eru talin upp í 27 liðum í athugasemdum við frumvarpið. Efni frumvarpsins er nokkuð víðtækt þar sem það tekur ekki aðeins til tollafgreiðslu á vöru heldur einnig atriða eins og skipan tollvarða, verkaskiptingar milli lögreglu og tollstjóra og heimilda tollyfirvalda til að afla upplýsinga.

Í umsögnum og máli gesta kom fram gagnrýni á nokkur atriði. Má þar nefna heimild tollstjóra til að endurákvarða tolla og gjöld, að ekki væri gengið enn lengra í rafvæðingu tollskjala, skyldu tollmiðlara til að geyma afrit skriflegra gagna, að tollumdæmum sé ekki fækkað í eitt, saknæmisskilyrði og þyngd refsinga. Þessi atriði hefur nefndin skoðað vandlega en getur aðeins tekið undir gagnrýni að nokkru leyti, svo sem um þrengingu saknæmisskilyrða sem hún leggur til að verði færð þar sem við á úr venjulegu gáleysi í stórfellt gáleysi. Þá gerir nefndin einnig að tillögu sinni að ákvæðum um vexti á tolla og gjöld sem endurákvörðuð eru verði breytt.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Skilgreint verði hver er ábyrgðaraðili fars samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, sem útgerðarmaður eða flugrekandi þess.

2. 7. gr. verði breytt. Annars vegar verði fellt brott skilyrði um erlent lögheimili þess sem flytur inn vöru tímabundið og fær lækkun eða niðurfellingu tolla af þeim sökum. Er m.a. mælt með þessu með hagsmuni íslenskra stúdenta erlendis í huga. Hins vegar verði bætt við nýrri málsgrein er heimili tímabundinn innflutning tengivagna, sem skráðir eru erlendis. Þarna er helst um að ræða vagna sem fluttir eru inn tímabundið til vöruflutninga, svo sem á fiski.

3. Smásendingum verði bætt við upptalningu 1. mgr. 26. gr. en ýmis smávara er gjarnan send stök, t.d. með hraðsendingu.

4. Ákvæði 2. mgr. 30. gr. verði breytt og það gert skýrara og fyllra. Mælir nefndin m.a. með að bætt verði inn skyldu til að láta í té upplýsingar um farþega fars en samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er þessara upplýsinga nú krafist m.a. í tengslum við fíkniefnaeftirlit.

5. Ákvæði 2. mgr. 125. gr. verði breytt og það fært að hluta til samræmis við sambærilegt ákvæði í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem nú heita Lög um tekjuskatt.

6. 182. og 183. gr. um upptöku farartækja o.fl. falli brott.

7. Saknæmisskilyrðum verði breytt þannig að miðað sé við ásetning eða stórfellt gáleysi í stað einfalds gáleysis.

8. Leiðréttar verði nokkrar tilvísanir í frumvarpinu og orðalag nokkurra greina lagfært. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, númer 1257.

Undir nefndarálit meiri hlutans skrifa hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Una María Óskarsdóttir og Gunnar Birgisson.