Tollalög

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 16:03:36 (7961)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Tollalög.

493. mál
[16:03]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er viðamikill lagabálkur á ferðinni, frumvarp til tollalaga, og hefur verið gerð nokkur grein fyrir málinu af hálfu formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Péturs H. Blöndals, en hann talaði fyrir munn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er efnahags- og viðskiptanefnd klofin í málinu og skilum við í minni hlutanum sameiginlegu nefndaráliti en undir það rita ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Helgi Hjörvar og sá sem hér stendur.

Í rauninni er hér ekki á ferðinni mál sem á að þurfa að valda stórfelldum deilum. Þó eru ýmis atriði sem okkur hafa þótt gagnrýniverð og annað sem við hefðum viljað láta skoða betur en gert er. Sérstaklega óánægður er ég með hve lítið menn hafa verið reiðubúnir að taka tillit til sjónarmiða sem fram koma frá samtökum starfsmanna, annars vegar Tollvarðafélagi Íslands og BSRB, en þessir tveir aðilar eru reyndar náskyldir því að Tollvarðafélag Íslands á aðild að BSRB. Það sem þarna er bent á í álitsgerðum þeirra samtaka lýtur sérstaklega að réttindum tollvarða. Eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hefur staðið nokkuð í stappi hin síðari ár að fá viðurkennda skilgreiningu á starfi tollvarða. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék reyndar nokkuð að var skrifað bréf til fjármálaráðuneytisins í desembermánuði árið 1998 og óskað eftir skýringu á ákvæði núgildandi tollalaga, 10. gr.

Þar segir, með leyfi forseta, m.a.:

„Hver sá sem skipaður er til starfa sem tollvörður skal hafa lokið prófi frá tollskóla eða hlotið sambærilega menntun.“

Síðan segir í bréfi Tollvarðafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Vill TFÍ með bréfi þessu fara þess á leit við ráðuneytið að það skýri afstöðu ráðuneytisins á orðasambandinu „sambærileg menntun“ í þessari lagagrein.“

Undir bréfið skrifar gjaldkeri TFÍ, Guðbjörn Ármannsson.

Síðan þetta gerðist eru liðin sjö ár en ekkert bólar á svari frá ráðuneytinu. Ráðuneytið hreinlega svarar ekki þessu erindi. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þetta ákvæði er að finna í nýja tollalagafrumvarpinu. Nú er það komið í 46. gr. frumvarpsins, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar tollstjórann í Reykjavík til fimm ára í senn og skal hann fullnægja sömu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti.

Tollstjóri skipar tollverði til fimm ára í senn. Tollstjóri ræður aðra starfsmenn við embætti sitt. Hver sá sem skipaður er til starfa sem tollvörður skal hafa lokið prófi frá Tollskóla ríkisins eða hlotið sambærilega menntun.“

Síðan segir að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsheiti tollvarða.

Það sem tollverðir óskuðu eftir var einfaldlega að sett yrði í tollalögin, 1. gr. frumvarpsins þar sem tekið er á margvíslegum skilgreiningum, eftirfarandi klásúla, með leyfi forseta:

„Hver sá sem ráðinn hefur verið tímabundið sem tollvörður eða hefur lokið prófi frá Tollskóla Íslands og hefur verið skipaður sem tollvörður.“

Hér er komin tillaga frá Tollvarðafélaginu um skilgreiningu á tollverði.

Á þetta var ekki hlustað og meiri hluti nefndarinnar ekki reiðubúinn að setja þessa skilgreiningu í lögin.

Ég vil vekja athygli á annarri lagagrein sem lýtur að skilgreiningu og heimildum til að hafa með höndum tollgæsluvald, sem er ígildi lögregluvalds, að í 147. gr. lagafrumvarpsins er að finna svohljóðandi orðalag, með leyfi forseta:

„Tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir fara með tollgæsluvald samkvæmt lögum þessum.

Fjármálaráðherra er heimilt í undantekningartilvikum að fela öðrum starfsmönnum tollstjóra tollgæsluvald tímabundið til að sinna sérstökum verkefnum.

Lögreglumenn fara með tollgæsluvald þegar þeir annast eða aðstoða við tollgæslu.

Skipshafnir varðskipa fara með tollgæsluvald þegar þær annast eða aðstoða við tollgæslu.

Þeir sem kvaddir eru tollgæslunni til aðstoðar lögum samkvæmt fara með tollgæsluvald meðan þeir gegna starfinu.“

Það sem Tollvarðafélagið og BSRB vildu láta gera í þessari lagagrein er að skýrt væri að það væru ekki allir fulltrúar tollstjóra sem færu með tollgæsluvald og var gerð tillaga um að 1. mgr. orðaðist svo, með leyfi forseta:

„Tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra er sinna tollgæslumálum, og tollverðir fara með tollgæsluvald.“

Það er svolítið sérkennilegt að ákveðin tilhneiging er til þess að líta svo á að hópi með tiltekna menntun skuli fengin víðtæk verkefni á sama tíma og menn horfa mjög rækilega í það þegar um aðra hópa er að ræða. Nú erum við með Tollskóla ríkisins, við erum með sérstaka skilgreinda menntun fyrir tollverði, en lögfræðin er að sjálfsögðu víðfeðm og tekur til margra sviða. En það er nægjanlegt að hafa lögfræðipróf upp á vasann, vera kominn í vinnu hjá tollinum, þá er tollstjóra eða yfirmönnum þar í sjálfsvald sett að fela slíkum aðilum tollgæsluvald. Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að verða við þeim óskum Tollvarðafélagsins og BRSB um að skilgreina verksviðið aðeins ítarlegar með þessum hætti.

Það er annað sem ég veit að tollvörðum er ofarlega í huga og það eru lífeyrisréttindin. Þeir leggja áherslu á það í umsögn sinni að löggjafinn hugi að því að koma til móts við tollverði á sama hátt og samið var um við Landssamband lögreglumanna ekki alls fyrir löngu. Það væri þá fjármálaráðuneytið sem annaðist slíka samninga en síðan þyrfti lagabreyting að koma til eins og gerðist með Landssamband lögreglumanna.

Í röksemdum sínum fyrir þessu hafa tollverðir bent á að tollverðir og lögreglumenn vinni iðulega hlið við hlið og séu að fást við sömu, a.m.k. mjög sambærileg verkefni, t.d. í Leifsstöð í Keflavík og víðar, en búi við þessa mismunun hins vegar, séu að uppistöðu til í sama kjara- og réttindakerfinu en réttindin mjög mismunandi að þessu leyti.

Það er þannig með lífeyrisréttinn að um hann hefur verið samið og breytingar gerðar á honum eftir að samkomulag hefur verið gert á vettvangi heildarsamtaka. En varðandi kröfur lögreglumanna á sínum tíma um að stytta starfsaldurinn höfðu þeir að baki sér og á bak við sig stuðning heildarsamtakanna BSRB. Þetta hafði verið baráttumál lögreglumanna um langan aldur, að stytta starfsævina í þennan endann, einfaldlega vegna þess að álagið og kröfurnar sem gerðar eru til starfsins hentuðu ekki einstaklingum sem væru komnir upp fyrir tiltekin aldursmörk.

Auðvitað má segja það um aðra hópa líka. Ég tel mjög brýnt að horfa til starfshópa sem sinna erfiðum störfum t.d. í heilbrigðiskerfinu, í heilsugæslunni og á spítölunum. Ég horfi til stétta á borð við sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga og annarra slíkra sem vinna allan sólarhringinn og allan ársins hring við mjög erfiðar aðstæður oft og tíðum, sumt fólgið í aðstæðunum sjálfum, sumt í eðli starfans. Það er erfitt að sinna mjög veiku fólki og ósjálfbjarga fólki og mikið álag þegar vinna þarf allan sólarhringinn, nætur jafnt sem daga. Það er ekki leggjandi á fólk sem er orðið mjög fullorðið að sinna þessum erfiðu störfum.

Ég tel að huga eigi að því að rýmka þessi aldursskilyrði fyrir fleiri hópa en lögreglumenn eina, en fagnaði því mjög og geri enn í hjarta mínu að þeir skyldu ná því fram, en það gerðu þeir svo sannarlega með stuðningi heildarsamtaka sinna .

Það eru fleiri atriði sem samtök launafólks gera athugasemdir við í þessu frumvarpi, t.d. segir hér í álitsgerð BSRB, með leyfi forseta:

„Í 3. mgr. 46. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild til að setja mann tímabundið til starfa sem tollvörð vegna orlofstöku, veikinda- og slysaforfalla eða tímabundinna leyfa tollvarða. Þá er heimilt að setja mann tímabundið meðan tekin er ákvörðun um að skipa hann að fullu eða meðan hann stundar nám við tollskólann. BSRB bendir í þessu sambandi á lög um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003 og 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en rétt væri að vísa í framangreind lög í greinargerð með frumvarpinu til að árétta lengd tímabundinnar ráðningar en mikið er um það að tollverðir séu settir tímabundið til margra ára í senn.“

Ég vík að þessu sérstaklega því þetta er náttúrlega atriði sem þarf að taka til skoðunar, ekki bara hjá tollinum heldur víða í hinu opinbera kerfi, en um það var samið á sínum tíma, gert var samkomulag um það á sínum tíma að tímabundnar ráðningar ættu að vera fyrir bí, þetta tíðkaðist í mörgum stofnunum, og gekk samkomulagið út á að eftir eitt ár skyldi einstaklingurinn hafa réttindi á borð við fastráðinn mann og aldrei skyldi tímabundin ráðning vara lengur en í tvö ár. Út á það gekk samkomulagið sem gert var.

Það eru fleiri atriði sem er að finna í umsögnum samtaka launafólks og í umsögnum annarra aðila einnig, en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert mjög skilmerkilega grein fyrir þessum athugasemdum og ætla ég ekki að endurtaka þær, en fara nokkrum orðum um efnisþætti minnihlutaálits okkar. Við bendum á að í frumvarpinu eru gerðar tillögur um ýmsar breytingar frá gildandi tollalögum og áréttum að komið hafi fram það margar athugasemdir í umfjöllun nefndarinnar að greinilega þurfi að skoða frumvarpið betur áður en það verður afgreitt frá Alþingi. Hér segir í álitsgerðinni, með leyfi forseta:

„Tollalög eru þess eðlis og varða slík réttindi að mikilvægt er að til þeirra sé vandað svo sem frekast er unnt. Ýmsir gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar, þar á meðal Samtök verslunar og þjónustu, Tollvarðafélagið, BSRB og embætti skattrannsóknarstjóra gagnrýndu ákvæði frumvarpsins.“

Við teljum að með þeim breytingartillögum sem koma frá meiri hlutanum sé þessum ábendingum ekki svarað, þessari gagnrýni er ekki nægilega svarað til þess að við treystum okkur til að eiga aðild að sameiginlegu áliti nefndarinnar.

„Meðal veigamikilla atriða sem minni hlutinn telur þarfnast mun meiri íhugunar en liggur að baki frumvarpinu er verkaskipting og valdmörk milli lögreglu og tollstjóra. Af umsögnum að dæma er augljóst að ákvæði er þetta varða, þar á meðal 185. gr., eru ekki nægilega skýr. Afar mikilvægt er að öllum sé ljóst frá frumstigi hver eigi að fara með mál og dugar að benda á þau vandkvæði sem upp komu vegna rannsókna á samkeppnislagabrotum fyrir nokkrum missirum. Oft er erfitt að ákvarða alvarleika og eðli tollalagabrota og æskilegt að lagatexti sé sem allra skýrastur um hvaða brot skuli rannsökuð af lögreglu og hver af tollstjórum. Ákvæði frumvarpsins um þetta hafa sýslumenn m.a. gagnrýnt. Því er ólíklegt að mikið samráð hafi verið haft við þá við gerð frumvarpsins …“

Við minnum á þau óljósu landamæri sem reyndust vera á milli aðila, rannsóknaraðila, þegar samkeppnislagabrot komu upp. Síðan er vikið að sakarskilyrðum í álitsgerð okkar, minnihlutaáliti okkar, og heimildum tollstjóra til endurálagningar tolla og gjalda, og um vexti segir m.a. í álitsgerð minni hlutans, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur að rétt hefði verið að ræða mun ítarlegar þann mun sem er á milli vaxta sem einstaklingar verða að greiða til ríkis vegna vangreiddra gjalda og svo skyldu ríkisins þegar það þarf að endurgreiða oftekin gjöld. Þennan mismun þarf að skoða í samhengi við önnur lög á skattasviðinu.“

Um tollembætti segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn vill líka benda á að umsagnaraðilar leggja til að tollumdæmum verði fækkað frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Slík breyting hefur lengi verið til umræðu og af mörgum talin nauðsynleg, m.a. til að ná fram samræmi í framkvæmd laganna. Í upphaflegu frumvarpi til tollalaga, sem dreift var til kynningar undir lok 130. þings, var gert ráð fyrir töluvert ólíku skipulagi tollyfirvalda en því sem nú er lagt til. Í frumvarpinu sem lagt var fram á 130. þingi var gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík færi með tollamálefni í umboði ráðherra og tollumdæmum yrði fækkað úr 26 í níu.

Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að fallið hefði verið frá fækkun tollumdæma m.a. vegna þess að til stæði að skoða mögulegar breytingar í þessum efnum á næstunni í samhengi við endurskoðun annarra stjórnsýslusviða, svo sem lögreglu og sýslumanna.

Minni hlutinn telur að gera þurfi ítarlega úttekt á kostum þess og göllum ef fækka á tollumdæmum og meta sérstaklega áhrifin á landsbyggðina, m.a. hvort færa mætti einhver verk tollgæslunnar sem nú eru unnin í Reykjavík út á land þó að umdæmum hennar verði fækkað.“

Hér erum við með öðrum orðum ekki að taka mjög eindregna afstöðu og nánast enga afstöðu með því fyrirkomulagi sem skuli vera til frambúðar en segjum að þessi mál þurfi öll að skoða og við viljum að þar sé horft til hagsmuna landsbyggðarinnar og þá hvort mögulegt sé að flytja einhver verkefni sem unnin eru í Reykjavík út á land. Ég held reyndar að menn þurfi að vanda sig mjög vel þegar slíkt er gert einfaldlega vegna þess að dæmin hræða, sagan hræðir. Teknar hafa verið stofnanir og þær bókstaflega rifnar upp með rótum og fluttar til. Hefur það komið miklu raski, óþarfaraski á þá starfsemi og á þær stofnanir og orðið til mikill vandræða fyrir starfsfólkið. Ég held að það sé miklu heppilegri hugsun, nálgun, að dreifa verkefnum. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða starfsemi sem tekur til landsins alls, við skulum taka starfsemi á borð við vegagerð og tollgæslu, þá tel ég að byggðastefnan eigi að felast í því að efla kjarnana, þjónustukjarnana, starfskjarnana á landsbyggðinni í stað þess að taka höfuðstöðvar eða miðstöð stjórnsýslunnar og flytja hana til oft nauðuga viljuga. Það hefur því miður allt of oft gerst, enda held ég að stjórnvöld hafi áttað sig á að það hafi ekki verið til góðs að viðhafa slík vinnubrögð.

Þá er þess að geta að í minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar tökum við undir ábendingar Tollvarðafélagsins og BSRB um skilgreiningu á tollvarðastarfinu og á hvaða forsendum heimilt er að fela öðrum en tollvörðum tollgæsluvald, en þetta er atriði sem ég vék að í upphafi máls míns og skýrði hvað lægi að baki og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór einnig ítarlega yfir málin og tölum við algjörlega einum rómi hvað þetta snertir eins og reyndar önnur atriði varðandi þetta þingmál. Í niðurstöðu okkar segir síðan, með leyfi forseta:

„Við meðferð frumvarpsins gafst nefndinni ekki nokkur kostur að vinna í og fara yfir tollskrá sem er fylgiskjal með frumvarpinu en bæði Neytendasamtökin og nokkrir innflytjendur hvöttu til ítarlegrar endurskoðunar á henni.

Minni hlutinn telur rétt að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað og nefndin vinni að því í samráði við fulltrúa hagsmunaaðila og framkvæmdarvaldsins að bæta frumvarpið og samræma það betur öðrum lögum þannig að það geti orðið sá grundvöllur að innflutningsviðskiptum sem því er ætlað að vera.“

Hæstv. forseti. Þessar athugasemdir sem við gerum eru allar þess eðlis að unnt hefði verið að koma til móts við þær, í sumum tilvikum erum við einfaldlega að hvetja til umræðu og skoðunar eins og t.d. varðandi tollumdæmin og stærð þeirra. Í öðrum tilvikum hefði verið mjög auðvelt að verða við einföldum, sjálfsögðum og réttlátum kröfum sem fram hafa komið frá Tollvarðafélaginu og BSRB um skilgreiningu á tollvarðastarfinu og annað af þeim toga.

Eins og ég segi þá er þetta mál ekki þess eðlis að það kalli á miklar deilur eða mikil átök. Þetta er viðamikið mál og þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Starfsmenn ráðuneytisins hafa unnið ágætt starf svo og nefndasviðið í tengslum við þetta frumvarp eins og mörg önnur og ber að sjálfsögðu að þakka það.

Eins og fram kom hjá fyrsta flutningsmanni minni hlutans, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, getum við ekki stutt frumvarpið, við munum sitja hjá við afgreiðslu þess, enda verður það að vera á ábyrgð stjórnarmeirihlutans sem er ákveðinn í að málið verði lögfest núna.