Tollalög

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 18:46:31 (7983)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Tollalög.

493. mál
[18:46]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum núna er að mörgu leyti tilraun til að gera skattalögin mannúðlegri og rökréttari og hv. efnahags- og viðskiptanefnd vann í þeim anda. Hér er lagt til að fellt verði niður ákvæði sem hljóðar svo og er úr gömlum lögum og er í gildandi lögum:

„Ef um stórfellt brot er að ræða eða sakir eru að öðru leyti miklar er heimilt að gera upptæk farartæki sem notuð hafa verið til þess að fremja brot. Upptaka er heimil þótt sökunautur sé annar en eigandi farartækis ef sannað þykir að eigandinn hafi vitað eða mátt vita í hvaða skyni nota átti farartækið.“

Þarna er verið að gera farartækið meðsekt í broti. Þetta ákvæði hefur verið lengi í gildi og hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagði til að það yrði fellt úr gildi. — Ég segi já.