Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 11:18:53 (8129)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:18]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Frumvarpið sem við erum með fyrir framan okkur er ekki langt, örugglega stysta frumvarp sem ég hef séð, en ég hef reyndar ekki verið lengi á þingi. Ég held að það væri ekki hægt að gera það styttra nema ef númer greinarinnar sem á að falla brott væri á bilinu einn til níu og ef gildistími laganna væri maí. Frumvarpið er aðeins tvær greinar. Engu að síður er efni frumvarpsins mikilvægt, því verið er að fella úr gildi gjald af allri innveginni mjólk. Í staðinn eiga bændur að greiða beint fyrir þjónustu við sæðingar. Það er reyndar þróun sem er almennt í gangi á Íslandi að fólk borgi sem mest beint fyrir þá þjónustu sem það fær.

Í nýjustu búvörusamningum við mjólkurbændur er hins vegar gert ráð fyrir að þeir fái styrk til kynbótaverkefna, en eftir því sem mér skilst hefur hluti af gjaldinu einmitt farið til kynbótaverkefna. Það er gott mál, því sá stuðningur sem bændur fá á þann hátt flokkast undir grænan stuðning, sem er heimill af hálfu Evrópusambandsins, en eins og við vitum er ekki hvaða form sem er heimilt í stuðningi við bændur né aðrar atvinnugreinar.

Stuðningur við rannsóknir er ákaflega mikilvægur eins og fram hefur komið. Bændur sæða auðvitað ekki kýr sínar með sæði úr hvaða nauti sem er, ekki frekar en áður fyrr, heldur er verið að leita að tilteknum eiginleikum. Þeir eiginleikar verða kunnir með rannsóknum og eru ræktaðir upp með rannsóknum. Þar getur auðvitað verið um ýmislegt að ræða, bæði er reynt að rækta eiginleika kúa sem mjólka vel. Það eru líka ræktaðir nautgripir til kjötframleiðslu. Á sama hátt og leitast er við að fá fram mikla holdfyllingu í sauðfé með rannsóknum er hið sama gert með rannsóknum á nautgripum, auk þess sem við höfum flutt inn nautgripi til að fá fram gott kjöt og holdmikið, holdmikla gripi. Sæðingaþátturinn er því aðeins hluti af þessu dæmi, herra forseti.

Annað dæmi sem ég vil nefna í rannsóknum á nautgripum varðar kálfadauða. Kálfadauði hefur verið mjög alvarlegt vandamál og vaxandi vandamál á Íslandi undanfarin ár. Rannsakendur hafa beint sjónum sínum mjög að því vandamáli undanfarið, en ekki haft árangur sem erfiði, því miður. Það er því ljóst að beina þarf sjónum mjög að þeim þætti framvegis, jafnvel enn frekar en gert hefur verið hingað til, því það er ekki nóg að sæðing heppnist vel, heldur þarf kýrin að halda kálfinum til að markinu sé náð.

Það sem innheimtist með 1,7% gjaldinu á síðasta ári í það minnsta nam 80 millj. kr., en gert er ráð fyrir 100 millj. kr. framlagi á fjárlögum árið 2006 til kynbótaverkefna samkvæmt samningnum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar sem tekur gildi í haust, frá og með 1. september, sama dag og frumvarpið á að taka gildi.

Ég skrifa undir frumvarpið eins og meiri hluti landbúnaðarnefndar, reyndar gerðu allir þeir fulltrúar í landbúnaðarnefnd sem voru viðstaddir þegar þetta var afgreitt úr nefndinni það. Ég tel því að málið sé í heildina gott. Mér þykir ánægjulegt að það er að koma aukið fjármagn til rannsókna á íslenskum nautgripum, því eins og ég sagði áðan bíða mörg verkefni og sum þeirra eru afar brýn.

Einnig koma upp ýmis álitaefni þegar verið er að breyta formi á hlutunum. Staða búnaðarfélaganna hefur nokkuð verið rædd í nefndinni, en ég tel heildarmarkmið laganna eðlilegt, að bændur greiði fyrir þá þjónustu sem þeir fá við sæðinguna og standi svo félagslega saman fyrir tilstuðlan ríkisins að rannsóknum.