Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 11:43:06 (8132)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:43]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var undarleg athugasemd þar sem ég gat ekki heyrt annað en hv. þingmaður væri með þessum orðum sínum að blessa þá stöðu sem uppi er t.d. í málefnum sauðfjárbænda. Grafalvarleg staða. Mjög vond staða. Hvort þingmaðurinn var með þeim orðum sínum og útúrsnúningum að verja það vonda fyrirkomulag og það slæma ástand sem uppi er hjá mörgum sauðfjárbændum, hv. þingmaður hlýtur að skýra það fyrir okkur hér á eftir. Er hv. þingmaður einnig að segja að styrkjakerfið eins og það er núna sé svo gott að ekki eigi að skoða að taka upp byggðatengdan stuðning við aðrar greinar eða þannig að menn hafi jafnvel sjálfval um í hvaða greinar þeir noti hann til að byggja upp atvinnu sína?

Það var alveg með ólíkindum að heyra hjá hv. þingmanni að allt væri í slíku himnalagi að það mætti bara ekki ræða málin á gagnrýnan hátt, sem er fráleitt, þó að margt sé mjög vel gert, eins og ég margsagði hérna áðan, og sérstaklega þar sem bændurnir eru ekki með neinum hætti undir oki framsóknaríhaldsins. En menn hljóta að skoða það hvernig styðja megi betur við bakið á dreifbýlinu og öðruvísi ef þess er kostur, ef svo vill horfa. Var hv. þingmaður virkilega að blessa þá stöðu sem uppi er t.d. í sauðfjárræktinni? Sem er hörmuleg á köflum og margir þeirra lepja dauðann úr skel, eiga mjög erfitt. Ég trúi því ekki að með þessari himnaríkisathugasemd sinni hafi þingmaðurinn verið að blessa það ástand sem þeir bændur búa við.