Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 11:47:22 (8134)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:47]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að fá nýtt blóð í sveitirnar sem byggir upp nýjar atvinnugreinar eins og til að mynda í kringum ferðaþjónustuna almennt þar sem mikill uppgangur er víða um land og einmitt rétt að skoða hvernig hægt er að standa myndarlega við bakið á því starfi.

Af því að hv. þingmaður dvaldi við mjólkurkvótaverð og þróun sem á sér stað þar þá er hún að mörgu leyti ágæt eins og ég sagði í ræðu minni áðan. Það var sjálfsögð og eðlileg þróun að búin stækkuðu og yrðu hagkvæmari en menn hljóta að taka eftir því, sérstaklega út af orðum hæstv. landbúnaðarráðherra sem er leiðtogi ríkisstjórnarflokkanna í landbúnaðarmálum, að hann vill ekki sjá þróunina með þeim hætti, heldur er framtíðarsýn hans að hér séu lítil eða meðalstór fjölskyldubú. Orð í þá veru hafa a.m.k. tvisvar ratað í fréttirnar, höfð eftir hæstv. landbúnaðarráðherra, en hv. þm. Drífa Hjartardóttir varði þessa þróun af nokkrum þrótti og á henni var að heyra að hún taldi hana nánast einungis til góðs og eins og ég sagði er hún að mörgu leyti ágæt og nauðsynleg. Menn hljóta samt að spyrja hvað eigi að ganga langt og hvenær er verð á mjólkurkvóta orðið of hátt, óeðlilega hátt.

Nú eru menn að skuldsetja sig jafnvel áratugi fram tímann til að greiða niður kvótakaupin, þannig að ábatinn af þeim skilar sér ákaflega seint. Bændur, kúabændur sem hafa verið að stækka við sig, byggja upp ný fjós og kaupa meiri kvóta, eru verulega skuldsettir. Það má því lítið út af bregða í greininni þannig að þeir lendi ekki í hremmingum.

Vegna þessarar þróunar, út af vanda og erfiðleikum sauðfjárbænda, út af öllum sprotagreinunum annars staðar úti á landi er kallað eftir framtíðarsýn stjórnvalda í skipan landbúnaðarmála og hvernig viðhalda eigi sáttinni um stuðninginn og hvernig koma eigi þeim stuðningi til greinanna þannig að fleiri njóti og á almennari hátt en nú er.